Ferðamenn spyrja um Bárðarbungu

Ferðamenn átta sig ekki alltaf á fjarlægðum og samhengi milli …
Ferðamenn átta sig ekki alltaf á fjarlægðum og samhengi milli ólíkra staða á hálendinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru nokkrir kúnnar búnir að hafa samband sem eru á leiðinni til Íslands og upplifa þetta eins og það sé mikil ógn í gangi,“ segir Georg Aspelund framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Discover Iceland. Ferðaþjónustufólk fær margar fyrirspurnir vegna Bárðarbungu og eitthvað hefur borið á afbókunum, en þó ekki mikið. 

Þá má sjá á umræðuvef ferðasíðunnar Tripadvisor að ferðamenn velta fyrir sér og spyrjast fyrir um m.a. hvort mögulegt eldgos gæti haft áhrif á bókuð flug þeirra til landsins og eins hvort ferðalög þeirra um landið verði heft vegna lokana á vegum í tengslum við jarðskjálftana.

Áhyggjufull vegna ferðar á Langjökul

Discover Iceland býður upp á jeppaferðir m.a. um hálendið og upp á jökla, þó ekki um áætlað áhrifasvæði mögulegs goss, við Vatnajökul norðanverðan. Georg segir ljóst að ferðamönnum hafi borist til eyrna að eitthvað sé í gangi, en þeir átti sig ekki alltaf á samhengi hlutanna.

„Fólk heldur kannski að þetta sé mjög lítil eyja og skynjar þetta þannig að það sé alls staðar mikil hætta á ferðum. Það var ein sem hafði samband sem er að koma til landsins með son sinn 12 ára með sér og upplifði að hún væri óábyrg að gera það. Hún á bókaða ferð á morgun upp á Langjökul. Það er vissulega á hálendinu en ég reyndi að útskýra fyrir henni að það sé langt þarna á milli.“

Georg segist hafa spjallað við kollega sína og það sé svipað hljóð í þeim öllum. „Það eru einstaka afbókanir en miklar fyrirspurnir um hvað sé best að gera. Fólk virðist vera sæmilega upplýst vegna tilkomu netsins, en auðvitað má alltaf gera betur og við reynum að útskýra fyrir fólki að þetta eldfjall sé fjarri byggðu bóli svo það ætti ekki að verða mikil hætta þó það komi gos.“

Aðspurður segir Georg hitt þó líka gerast, að fólk hafi samband gagngert vegna þess að það vilji komast í návígi við náttúruhamfarir. „Það hefur ekki gerst ennþá núna en þegar gaus í Grímsvötnum 2011 voru nokkrir sem vildu komast á staðinn, t.d. einhver bankamaður frá London sem vildi komast inn að gosstöðvum.“

Greitt aðgengi að upplýsingum lykilatriði

Starfsfólk ferðaþjónustunnar reynir að sögn Georgs frekar að draga úr heldur en ýkja stöðu mála. „En svo er það spurning um ábyrgð okkar, þetta er alltaf smá línudans því við vitum auðvitað aldrei fyrir víst hvað gerist. Helst reynum við að benda fólki á hvar það getur kynnt sér þetta og taka svo sjálfstæðar ákvarðanir. Það er alltaf einhver óvissa.“

Veðurstofa Íslands veitir upplýsingar á ensku og það gera almannavarnir líka á Facebook sem og vefsíður eins og Safetravel.is auk þess sem Ferðamálastofa birtir samantektir á ensku. mbl.is hefur sömuleiðis birt stöðufréttir á ensku. Halldór Arinbjarnarson upplýsingastjóri Ferðamálastofu, segir að póstur hafi verið sendur á alla ferðaþjónustuaðila um miðjan dag í gær. Sömuleiðis var samráðsfundur með fulltrúum almannavarna, en ekki talin ástæða til að grípa til frekari aðgerða gagnvart ferðafólki.

„Við höfum svo sem ekki gert könnun á því hversu útbreidd þessi vitneskja er meðal ferðafólks sem er á svæðinu, en við höfum beðið upplýsingamiðstöðvarnar og þá sem eru í beinum tengslum við ferðafólk að láta fólk vita hvað er í gangi með sem réttustum hætti,“segir Halldór.

„Fyrst og fremst er verið að reyna að leggja áherslu á að það sé greiður aðgangur að  upplýsingum þannig að það sé ekki verið að hræða fólk að óþörfu. Samt þarf fólk alltaf að halda vöku sinni.“

Bárðarbunga í Vatnajökli eins og hún blasti við úr lofti …
Bárðarbunga í Vatnajökli eins og hún blasti við úr lofti þann 18. ágúst 2014. mbl.is/Árni Sæberg
Eldvirkni á Íslandi, helstu eldstöðvakerfi, megineldstöðvar og virknismiðjur.
Eldvirkni á Íslandi, helstu eldstöðvakerfi, megineldstöðvar og virknismiðjur. mbl.is/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert