Vilja afnema busavígslur

Mynd frá busavígslu í Menntaskólanum í Reykjavík.
Mynd frá busavígslu í Menntaskólanum í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við getum ekki horft upp á þetta lengur,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri og formaður Félags íslenskra framhaldsskóla (FÍF) og Skólameistarafélags Íslands (SMÍ) um svokallaðar busavígslur sem tíðkast hafa í framhaldsskólum landsins. Hann segir stjórnendum framhaldsskóla hafa stafað ógn af busavígslum undanfarin ár og það hafi gerst að þær hafi farið alveg úr böndunum.

„Margir nemendur upplifa það að þeir séu niðurlægðir og foreldrar hafa haft samband og lagt áherslu á að það sé ekki komið svona fram við börnin þeirra,“ segir Hjalti, en FÍF og SMÍ hvetja til þess að móttaka nýnema sé jákvæð og uppbyggileg og busavígslur verði afnumdar.

Hjalti segir mikilvægt að nýnemar fái strax á tilfinninguna að þeir séu velkomnir og því eigi heldur að efna til jákvæðra nýnemahátíða. „Við viljum útrýma þessu gamla formi,“ segir hann, en margir skólar hafa nú þegar lagt busavígslur niður. Í öðrum skólum hefur það ekki gengið eins og skyldi að sögn Hjalta, en hann vill hvetja stjórnendur allra framhaldsskóla til að fylgja fordæminu og afnema busavígslurnar.

Breyttar áherslur í móttöku nýnema eru hluti af aðgerðaáætlun FÍF sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í júní síðastliðnum og byggir á Forvarnastefnu FÍF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert