Báru merki skólans hátt á lofti

Skólasetning Menntaskólans í Reykjavík fór fram í dag.
Skólasetning Menntaskólans í Reykjavík fór fram í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Skólasetning Menntaskólans í Reykjavík fór fram í 169. sinn í dag við hátíðlega athöfn. Nemendur söfnuðust fyrir framan skólann kl. 13.50 og gengu þaðan fylktu liði til skólasetningar í Dómkirkjunni, með merki skólans hátt á lofti.

Yngvi Pétursson, rektor MR, ávarpaði nemendur við komuna í Dómkirkjuna, bauð þá velkomna í skólann og hvatti þá til að stunda nám sitt af samvisku. 

Þið eruð nú þátttakendur í tæplega þúsund ára menntunarsögu þessa skóla og fyrirrennara hans í Skálholti, Hólavöllum og Bessastöðum. Því fylgir mikil ábyrgð en um leið bæði vegsemd og virðing að fá að stunda nám við elsta skóla landsins. En þið megið ekki gleyma því að sá kafli sem þið skráið í söguna markast alfarið af framlagi ykkar,“ sagði Yngi meðal annars í setningarræðu sinni.

Alls 903 nemendur eru skráðir í skólann þetta skólaárið og þar af hefja 256 nemendur nám á fyrsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert