Yfirgefur bústaðinn vegna gossins

Stefán Pálsson.
Stefán Pálsson. mbl.is/Baldur

„Ég reikna með að fara heim ekki seinna en á morgun vegna þess að ég tel ástæðulaust fyrir aðkomumenn að dvelja hér á meðan hættan gengur yfir,“ segir Stefán Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Búnaðarbankans og eigandi sumarhúss í landi Skinnastaða, skammt frá brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum við Ásbyrgi.

Stefán dvelur ásamt fjölskyldu sinni í sumarhúsinu Akri, milli Skinnastaða og Ferjubakka, um 2 kílómetrum norður af Jökulsárbrú. Hann hefur gengið frá öllum lauslegum hlutum á veröndinni og búið húsið undir veturinn. Fleiri sumarhúsaeigendur hafa yfirgefið eða eru að yfirgefa svæðið.

Sandarnir vestur af brúnni blasa við út um gluggann í stofunni á Akri og er Ásbyrgi í suðvestur. Lögreglumenn hafa lokað fyrir umferð í nágrenni brúarinnar í dag.

Ógnar ekki sumarhúsabyggðinni

Stefán óttast ekki að flóð í Jökulsá á Fjöllum muni ógna Akri eða byggð í Öxarfirði, ofan Sandár. Um tvo kílómetra norður af Akri er sumarhúsabyggð í landi Ærlækjar þar sem eru um 25 sumarbústaðir. 

„Við erum á öruggu svæði. Sandarnir blasa við sem mynduðust í jökulhlaupum Jökulsár á Fjöllum. Þetta land hér í Öxarfirði er allt vel gróðið og þar með hefur áin ekki haft nein áhrif hér fyrir ofan sandanna. Sandarnir verða til við hamfarahlaup úr Vatnajökli. Þau urðu nokkur á síðustu öldum. Bændurnir hafa smalað alla sandanna. Bæði í Öxarfirði og Kelduhverfi, tekið bæði hross og sauðfé og komið á öruggan stað,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Akur stendur á gömlu eyðibíli sem fór í eyði 1893. 

Stefán er vongóður um að brúin yfir Jökulsá á Fjöllum haldi.

„Við reiknum með að fara aftur norður síðar í haust.“

Af veröndinni við Akur er útsýni yfir sandanna við Jökulsá …
Af veröndinni við Akur er útsýni yfir sandanna við Jökulsá á Fjöllum. mbl.is/Baldur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert