Ferðaáætlun tryggði öryggi kvennanna

Sjálfboðaliðar Landsbjargar á leið á hálendið.
Sjálfboðaliðar Landsbjargar á leið á hálendið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Konurnar þrjár, sem fundust í Raufarhólshelli í Þrengslunum höfðu skilið eftir nokkuð ítarlega ferðaáætlun. Það varð til þess að björgunarsveitir voru tiltölulega fljótar að hafa uppi á þeim.

Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að leit hafi farið af stað þegar konurnar voru ekki búnar að láta vita af sér á þeim tíma sem búist var við þeim.

Hún vekur athygli ferðamanna, innlendra sem erlendra, á vefnum safetravel.is, þar sem hægt er að leggja innferðaáætlun, og 112-appinu, þar sem hægt er að skilja eftir „brauðmola“ til að auðvelda björgunarmönnum leitina.

„Þær ætluðu meðal annars að skoða þennan helli og vera komnar til baka um klukkan tvö í dag, en skiluðu sér ekki,“ segir Ólöf.

„Þá fóru ættingjar og vinir að grennslast fyrir og óskuðu loks aðstoð björgunarsveita.“ Eins og fram hefur komið á mbl.is urðu konurnar ljóslausar djúpt inni í hellinum, en hellirinn getur verið hættulegur, sérstaklega þegar maður sér ekki handa sinna skil. Þar að auki er nánast símasambandslaust í hellinum.

„Það var vel gert hjá þeim að skilja eftir ferðaáætlun. Það er meðal annars hægt að gera inni á vefnum safetravel.is,“ segir Ólöf.

Hún segir að leitin hafi gengið frekar vel, meðal annars þar sem bíllinn þeirra var fyrir utan hellinn. Töluverður fjöldi fólks tók þátt í leitinni.

„Þær brugðust hárrétt við þegar þær urðu ljóslausar og bara biðu. Þær voru frekar vel haldnar, þær keyrðu bara í burtu á bílnum sínum þegar þær voru komnar út úr hellinum.“

Fundust í hellinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert