Fetar í fótspor Ólafs og Hermanns

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra. mbl.is/Golli

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er einnig ráðherra dómsmála frá og með deginum í dag. Það hefur ekki gerst að sami ráðherrann stýri bæði forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu síðan árið 1999, þegar Davíð Oddsson var bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra í skamman tíma frá 11. til 28. maí auk þess sem hann fór með málefni sjávarútvegsmála.

Var það fyrstu dagana fyrir þingkosningar það ár áður en ný ríkisstjórn var mynduð, en Þorsteinn Pálsson, sem verið hafði dóms-, kirkjumála- og sjávarútvegsráðherra, hætti sem alþingismaður í kosningunum og þar með sem ráðherra. Síðar á árinu var hann skipaður sendiherra.

Þar á undan hafði það ekki gerst frá því að Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór með þessa tvo málaflokka í ríkisstjórninni 1971-1974 sem mynduð var af Framsóknarflokknum, Alþýðubandalaginu og Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna.

Jóhann Hafstein, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var enn fremur bæði forsætisráðherra og dómsmálaráðherra 1970-1971. Sömuleiðis fór Hermann Jónasson, sem þá var formaður Framsóknarflokksins, bæði með málefni forsætisráðuneytisins og dómsmála í ríkisstjórninni 1956-1958.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert