Naga neglur og hnúa næstu vikur

Haukur Hannes.
Haukur Hannes.

Lag Íslendingsins Hauks Hannesar og sænskrar skólasystur hans, Jackie Tech, endaði í níunda sæti í netkosningu í alþjóðlegu lagasmíðakeppninnar Toontrack EZDrummer 2 Songwriting Competition. Lagið er því komið áfram í lokaumferð keppninnar og munu þrír dómarar nú skera úr um hvaða lög komast í efstu þriðju sætin.

„Við erum kampakát með þetta. Þetta var orðin hálfgerð styrjöld í lokin, atkvæðafjöldi þeirra fimm til sjö laga sem börðust um að halda sér inni breyttist mikið á lokasprettinum,“ segir Haukur í samtali við mbl.is.

1.350 lög voru send inn í keppnina og þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Hauk í lok júlí sveiflaðist lagið milli þess að vera í 24. og 26. sæti.

Spennandi allt fram á síðustu stundu

Atkvæðagreiðslunni lauk á hádegi í gær og var það ekki fyrr en korter í tólf sem þau Haukur og Jackie gátu andað léttar og verið nokkuð viss um að komast áfram. „Nú tekur við tveggja vikna bið þar sem maður nagar neglur og hnúa,“ segir hann en þá liggja úrslit keppninnar fyrir. 

Dómnefndina skipa þrír atvinnumenn í lagasmíði. Höfundar sigurlagsins fá 10.000 dollara í sinn hlut en Haukur segir að gaman væri að lenda í einu af efstu þremur sætunum. „Þetta verður góð markaðssetning fyrir plötuna sem við vinnum að. Verðlaunaféð fyrir fyrsta sætið myndi aftur á móti fjármagna plötuna. Þá værum við ekki lengur ósýnileg.“

Haukur segir að Jackie sé þegar farin að fá viðbrögð frá tónlistarheiminum og því er aldrei að vita hvaða tilboð bíða vinanna sem vinna nú að útgáfu smáskífu með fjórum lögum.

Frétt mbl.is: Keppa í alþjóðlegri lagasíðakeppni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert