Ólafur hættur sem ritstjóri Fréttablaðsins

Ólafur Stephensen.
Ólafur Stephensen.

Ólafur Stephensen tilkynnti í dag að hann væri hættur sem ritstjóri Fréttablaðsins. Hann vildi ekki annað starf innan 365 miðla. Ólafur skrifaði leiðara í Fréttablaðið í dag, þar sem honum varð tíðrætt um sjálfstæði fjölmiðla gagnvart peningalegu valdi.

Yfirlýsing Ólafs er svohljóðandi:

„Ég undirritaður hef falið lögmanni mínum að tilkynna Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365 miðla, að ég líti svo á að ráðningarsamningi mínum við 365 miðla hafi verið rift og ég sé óbundinn af honum. Boð um breytt starf hjá fyrirtækinu, sem átti að fylgja ritstjóratitill, fól engu að síður í sér verulega breytingu á verkefnum mínum, starfsskyldum og ábyrgð.

Ráðning tveggja nýrra ritstjóra felur það sama í sér. Þá hafa fleiri atburðir undanfarinna daga á fréttastofu 365, sem ég get ekki tjáð mig frekar um vegna trúnaðar, orðið til þess að ég get ekki litið öðruvísi á en að ætlunin sé að þrengja að sjálfstæði mínu sem ritstjóra, sem kveðið er á um í siðareglum félagsins.

Af þessu leiðir að ég mæti ekki til starfa á fréttastofunni á morgun. Ég kveð gott samstarfsfólk með söknuði og þakka því ánægjulega samfylgd.“ Það er ástæða til að ítreka enn betur hér þakkir mínar til ykkar, frábæra samstarfsfólk, sem ég hef átt með fjögur og hálft ánægjulegt ár.

Sjáumst síðar.“

Hættu vegna ósættis

Í frétt á VB.is segir að Ólafur og Mikael Torfason, sem einnig hefur látið af störfum hjá 365, hafi hætt vegna ósættis. Á VB.is segir: „Upp úr sauð á fundi Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda 365, Mikaels Torfasonar, fyrrverandi aðalritstjóra 365, og Ólafs Þ. Stephensen, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins á fimmtudag í síðustu viku vegna afskipta Kristínar af frétt á netmiðlinum Vísi sem þar birtist í síðustu viku.

Fréttin heldur áfram: „Málið snerist um frétt úr Fréttablaðinu sem birtist á miðvikudag um það að söngvarinn Geir Ólafs hafi boðið sjónvarpskokkinum Guðrúnu Veigu Guðmundsdóttur út að borða. Guðrún stýrir matreiðsluþættinum Nenni ekki að elda og er hann sýndur á sjónvarpsstöðinni iSTV.

Fréttin birtist á Vísi.is eins og aðrar fréttir úr Fréttablaðinu og var hún á netmiðlinum fram að kvöldmatarleyti sama dag. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Kristín hafi hins vegar fengið því framgengt að blaðamaður á Vísi.is tæki fréttina úr birtingu þar sem hún var talin fjalla á jákvæðan hátt um samkeppnisaðila 365.

Fréttamenn tóku eftir því síðar um kvöldið að fréttin hafði verið fjarlægð og birtu hana aftur eina mínútu yfir miðnætti 20. ágúst, þ.e. aðfaranótt fimmtudags. 

Þeir Mikael og Ólafur funduðu með Kristínu um málið á fimmtudag í síðustu viku til að ræða um málið en afskipti Kristínar af fréttaflutningi Vísis var talin brjóta í bága við ritstjórnarreglur 365.“

mbl.is hefur ekki náð tali af Ólafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert