Stöðug virkni og öflugri skjálftar

Jarðhræðingarnar við Bárðabungu halda áfram, en vísindamenn og Almannavarnir fylgjast …
Jarðhræðingarnar við Bárðabungu halda áfram, en vísindamenn og Almannavarnir fylgjast grannt með ástandinu. mbl.is/Árni Sæberg

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að jarðskjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli sé enn stöðug og jarðskjálftar öflugri. Stærsti jarðskjálfti þessarar hrinu mældist í nótt og var hann að stærðinni 5,7. Hættustig almannavarna er enn í gildi.

Í stöðuskýrslu almannavarna segir, að skjálftavirknin sé mest við enda gangsins norður úr Dyngjujökli. Stærsti jarðskjálfti þessarar hrinu mældist í nótt um klukkan 01:26 og var hann að stærðinni 5,7 og átti hann upptök sín norðantil í Bárðarbunguöskjunni.

Þá varð annar jarðskjálfti klukkan 11:56 að stærðinni 4,6 á um 8 km dýpi við jökulsporðinn í Dyngjujökli.

Ekkert hægt að segja til um framhaldið

Gangurinn er nú kominn um 10 km norður fyrir jökuljaðarinn. Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera hátt í 40 km langur. Líkanreikningar byggðir á GPS mælingum benda til þess að rúmmálsaukningin í ganginum síðasta sólarhringinn sé 50 milljónir rúmmetra. Þá benda líkanreikningar byggðir á GPS mælingum að heildar magnið í ganginum sé 350 milljón rúmmetrar.

Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna. Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Þrír möguleikar eru enn taldir líklegastir:

  • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til eldgoss.
  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist. Líklegast er að það verði við norðurenda gangsins. Þá er líklegast að verði hraungos með nokkurri sprengivirkni.
  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir, t.d. gos í Bárðarbunguöskjunni, en líkur á því eru mun minni á þessari stundu.

Lokanir í gildi norðan Vatnajökuls og í Jökulsárgljúfrum að Dettifossi

Vísindamannaráð almannavarna kom saman til fundar í morgun og fór yfir nýjustu gögn vísindamanna. Í framhaldinu var fjarfundur með fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra með lögreglustjóranum á Húsavík i þar til að samhæfa aðgerðir og frekari uppfærslur á rýmingaráætlunum í umdæminu

Lokanir eru í gildi á hálendinu norðan Vatnajökuls sem og í Jökulsárgljúfrum að Dettifossi. Björgunarsveitir og lögregla vakta lokaða svæðið.

Hægt er að nálgast kort með lokunum á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Veðurstofan hefur lækkað litakóða fyrir flug í appelsínugult og hafa allar takmarkanir á flugi verið felldar úr gildi. Allir áætlunarflugvellir eru opnir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert