Um 300 manns fylgja Stjörnunni út

Silfurskeiðin er ein af bestu stuðningsmannasveitum í fótbolta hér á …
Silfurskeiðin er ein af bestu stuðningsmannasveitum í fótbolta hér á landi. Eva Björk Ægisdóttir

Fjölmargir aðdáendur Stjörnunnar munu ferðast með liðinu til Mílanóborgar þar sem Stjarnan mætir Inter í seinni leik liðanna í Evrópudeildinni. Leikurinn fer fram fimmtudaginn 28. ágúst á heimavelli Inter, San Siro. Leikvangurinn þykir einkar glæsilegur og tekur rúmlega 80.000 manns í sæti á Evrópuleikjum.

Aðdáendur Stjörnunnar eru spenntir fyrir því að sjá liðið sitt takast á við stjórstjörnurnar í Inter í þessu umhverfi og eiga tæplega 200 manns bókaða ferð með leiguvél Úrvals Útsýnar auk þess sem rúmlega 100 manns ferðast á eigin vegum til borgarinnar.

Heilu fjölskyldurnar styðja liðið

Stóran hluta hópsins sem fylgir liðinu til Mílanó má flokka undir Silfurskeiðina, stuðningsmannasveit Stjörnunnar, en við sérstök tilefni fjölgar í hópnum og fara því heilu fjölskyldurnar út til að styðja liðið.

Um það bil 50 árskort seljast á ári hverju í árskortasölu Silfurskeiðarinnar. „Þetta er kjarninn sem reynir að mæta á alla leiki en við sérstök tilefni koma mun fleiri og hvetja liðið áfram með okkur,“ sagði Andri Heiðar Sigurþórsson, einn af forsprökkum Silfurskeiðarinnar. Í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli seldi Silfurskeiðin 350 miða á úthlutað svæði og komust færri að en vildu. Þar voru t.d. meðlimir yngri flokka Stjörnunnar og fyrrverandi leikmenn sem spiluðu með Stjörnunni í neðri deildum.

„Virkilega gaman ef íslenskt lið myndi sigra“

Margir höfðu nú þegar tryggt sér miða á seinni viðureign liðanna áður en fyrri leikurinn fór fram á Laugardalsvelli en fyrri leiknum tapaði Stjarnan með þremur mörkum gegn engu. Tapið vegur hins vegar ekki þungt á stuðningsmönnum Stjörnunnar. „Það voru ekki margir sem keyptu sér miða með því hugarfari að Stjarnan væri að fara að vinna fyrri leikinn. Við vorum alveg eins búnir undir það að tapa stórt en flestir gleðjast bara yfir tækifærinu að fá að keppa alvöru leik gegn svona stóru liði,“ sagði Andri.

Silfurskeiðin og aðrir aðdáendur hafa þó ekki lagt árar í bát heldur er markmiðið að láta heyra vel í sér á vellinum. „Við ætlum að styðja liðið áfram og hafa gaman af þessu sama hvernig fer. Við reynum að líta á björtu hliðina og vonum að leikmenn Inter séu orðnir það öruggir með sig að þeir sofni á verðinum. Það væri virkilega gaman ef íslenskt lið færi með sigur af hólmi á þessum velli.“

Mikil uppbygging í Garðabæ

Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að sjá þær miklu breytingar sem hafa orðið hjá þessu tiltölulega litla félagsliði í Garðabæ. Þá eru aðeins níu ár síðan Stjarnan spilaði í annarri deild á Íslandi.

Í dag er meðaláhorfendafjöldi á leiki Stjörnunnar 1.000 manns og stuðningsmannasveit liðsins þykir með þeim bestu á Íslandi. Andri segir miklar breytingar hafa átt sér stað á skömmum tíma þar sem liðið hafi vaxið heilmikið. Í stúkunni segja fyrrverandi leikmenn gjarnan sögur af því þegar örfáir mættu á leiki. „Þar voru bara tveir menn og hundurinn,“ sagði Andri léttur í bragði. „Umgjörðin í dag er hreinlega ekki samanburðarhæf við það sem var fyrir áratug.“

Stuðningsmenn liðsins ætla að láta í sér heyra á San …
Stuðningsmenn liðsins ætla að láta í sér heyra á San Siro leikvanginum í Mílanó. Eva Björk Ægisdóttir
Fyrri viðureign liðanna fór fram í síðustu viku.
Fyrri viðureign liðanna fór fram í síðustu viku. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert