Mikil áskorun að gera upp söguna

Egill Ólafsson
Egill Ólafsson Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er margt sem hefur komið mér á óvart í þessari sögu,“ segir Egill Ólafsson, sagnfræðingur og blaðamaður á Morgunblaðinu, sem vinnur að því að skrifa sögu Borgarness. Sagan mun koma út á 150 ára verslunarafmæli Borgarness í mars árið 2017.

Egill ólst upp í Borgarnesi og á Mýrunum. Hann hefur það sem af er ári einbeitt sér að því að safna heimildum um söguna fram yfir seinna stríð. Mestum heimildum hefur hann safnað á Héraðsskjalasafninu í Borgarnesi, þar sem hann hefur vinnuaðstöðu. Hann hefur einnig tekið viðtöl við um 20 Borgnesinga, en hann segir að viðtölin séu liður í að varðveita upplýsingar og frásagnir fólks sem komið er á efri ár.

„Þetta er spennandi viðfangsefni og margt sem vekur áhuga. Fátæktin í Borgarnesi á kreppuárunum var mikil og raunar átakanleg. Borgnesingar ráku á tímabili öfluga útgerð sem færði mikinn auð í bæinn á stríðsárunum. Stríðsárin voru líka mikill byltingatími í sögu bæjarins, en á þeim tíma varð Borgarnes eitt af ríkustu sveitarfélögum landsins,“ segir Egill og heldur áfram:

„Saga kaupfélagsins er líka mjög áhugaverð. Það var nálægt gjaldþrota árið 1921 en varð stórveldi í tíð Þórðar Pálmasonar kaupfélagsstjóra. Undir lok aldarinnar fjaraði undan því; það hætti að reka mjólkursamlag og sláturhús og verslunin dróst mikið saman. Ég lít á það sem mikla áskorun að gera upp þessa sögu og útskýra hvers vegna þetta gerðist. Það ætla ég mér að gera í bókinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert