Slagurinn um eignarhald DV

Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson
Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Það er ósiðlegt að ryðjast inn á ritstjórn með peninga til þess eins að reka einhvern,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri DV, um átökin sem hafa verið um eignaraðild að fjölmiðlinum að undanförnu og leiddu meðal annars til þess að Þorsteinn Guðnason var settur af sem stjórnarformaður.

Reynir og aðrir starfsmenn DV hafa sakað Þorstein um að standa fyrir fjandsamlegri yfirtöku á félaginu DV ehf., sem annast rekstur fjölmiðilsins. Efnt hefur verið til aðalfundar félagsins klukkan þrjú í dag á Hótel Reykjavík Natura þar sem ný stjórn verður kjörin og Reynir gerir ráð fyrir að fá reisupassann. Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs, hefur afþakkað boð um ritstjórastöðuna.

„Ítrekað komið til bjargar“

Þorsteinn var settur af sem stjórnarformaður þann 16. júlí sl. vegna óánægju annarra stjórnarmanna með hlutafjárkaup hans, en hann var sagður hafa setið báðum megin borðsins þegar hann seldi eigin félagi hlut í fjölmiðlinum. Eftir þessa ákvörðun keypti félag í hans eigu hlut Lilju Skaftadóttur í DV, en hún var áður meðal stærstu eiganda. Félög tengd Þorsteini eiga því nú um þrjátíu prósenta hlut í fjölmiðlinum. Þá hafa enn frekari hræringar verið á eignarhaldinu þar sem Björn Leifsson, eigandi World Class, keypti 4,42 prósenta hlut í vikunni.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, hefur einnig bendlað Sigurð G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmann, sem m.a. gætir hagsmuna Björns Leifssonar og Þorsteins Guðnasonar, við yfirtökuna. Sigurður hefur tekið fyrir þetta og segist aðeins starfa fyrir þá sem hafi lánað DV og Reyni umtalsverða fjármuni á undanförnum árum og nú sé komið að skuldadögum.

Þorsteinn segir ásakanir um fjandsamlega yfirtöku vera ósannar. Hið rétta sé að félög í hans eigu hafi keypt hlutafé og lánað fjármagn til hlutafjárkaupa í DV til þess að treysta rekstur þess. „Hvernig sá sem ítrekað hefur komið fyrirtæki til bjargar, getur allt í einu orðið óvinurinn undir rúminu, er sjálfstætt rannsóknarefni. Aftur er eina skýringin, að Reynir hafi ekki gert sínum nánustu samstarfsmönnum rétta grein fyrir stöðu mála og sé nú í einhverri örvæntingu að reyna að skrifa söguna eftirá.“ segir hann í yfirlýsingu og bætir við að upphæðirnar sem hann hafi komið með inn í fyrirtækið að beiðni Reynis hlaupi á tugum milljóna króna. „Auðvitað segja þeir þetta, en merkin sýna verkin og þetta fer allt fram í myrkri. Þeir eru klárlega að reyna að ná meirihluta og eru úti um allan hópinn að kaupa upp bréfin,“ segir Reynir um yfirlýsingu Þorsteins. „Ef það er löglegt og siðlegt segi ég nú bara verði þeim að góðu og ég mun lúta höfði og beygja mig fyrir þeim,“ segir hann.

Segja sjálfstæði stefnt í hættu

Reynir segir áskrifendur lagða á flótta og bendir á að tæplega hundrað manns hafi sagt upp áskrift sinni vegna málsins.„Ég hef sagt þeim að bíða og snúa ekki við okkur baki, en allir segja það sama; að breytingar á eignarhaldi þýði að þau vilji ekki kaupa blaðið,“ segir hann og bætir við að þegar menn séu spurðir nánar út í málið bendi þeir á að eignarhald Björns Leifssonar sé ástæðan. „Það er gríðarleg reiði í gangi vegna þess að þetta er svo augljóst. Þarna kemur inn hluthafi sem segir að ég sé stórhættulegur mannorðsmorðingi og vill að ég verði rekinn.“

Meiðyrðamál Björns Leifssonar gegn ritstjóra og útgefanda DV bíður nú meðferðar í dómskerfinu og segir Reynir að hann hljóti að vilja reka alla þá blaðamenn sem nefndir eru í stefnunni. Starfsmenn DV hafa þá einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir þungum áhyggjum vegna ófagra orða Björns um ritstjórnarstefnu blaðsins. Þau gefi tilefni til að óttast að nýir hluthafar muni ekki virða ritstjórnarlegt sjálfstæði blaðamanna.

Ekki náðist í Björn Leifsson við vinnslu fréttarinnar og vildi Þorsteinn Guðnason ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Fram kom í máli Reynis Traustasonar í Kastljósi í gær að Gísli Guðmundsson, sem kenndur er við Bifreiðar og landbúnaðarvélar, hefði bjargað félaginu frá gjaldþroti í gegnum félagið Umgjörð. Reynir hélt því einnig fram að Þorsteinn Guðmundsson hefði komið inn sem „aðstoðarmaður“ Gísla. Þegar Reynir spurði Sigurð G. Guðjónsson hvort honum væri kunnugt um eignarhaldið á Umgjörð, sagðist Sigurði ekki vera kunnugt um það. Síðar sagði Sigurður að hann færi með málefni Gísla Guðmundssonar sem hefði látið peninga inn í félagið og hann ynni einnig fyrir Þorstein.

Birni Þorlákssyni, ritstjóra hjá Akureyri Vikublaði, var boðin ritstjórastaða á DV en afþakkaði. Þetta staðfesti hann í samtali við Morgunblaðið en vildi þó ekki segja hver hefði boðið honum stöðuna. 

Sverrir Vilhelmsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert