DV braut persónuverndarlög

DV braut lög með meðferð sinni á tölvupóstum fyrrverandi starfsmanna.
DV braut lög með meðferð sinni á tölvupóstum fyrrverandi starfsmanna. mbl.is/Sverrir

Persónuvernd hefur staðfest að nýir stjórnendur DV hafi brotið lög með meðferð sinni á tölvupósthólfum þriggja fyrrverandi starfsmanna sinna. Reynir Traustason, fv. ritstjóri DV, segir úrskurðinn mikinn sigur og þremenningarnir muni leita réttar síns fyrir dómstólum í framhaldinu.

Auk Reynis kvörtuðu þau Jón Trausti Reynisson, fv. framkvæmdastjóri DV, og Heiða B. Heiðarsdóttir, fv. auglýsingastjóri blaðsins, til Persónuverndar varðandi notkun nýrra eigenda DV á tölvupósthólfum þeirra eftir að þau luku störfum hjá blaðinu. Héldu þau því fram að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að skoða pósthólfin til að aðgreina einkapósta frá þeim sem vörðuðu starfsemi DV, pósthólfin hafi verið áfram opin eftir að þau hættu og einkapóstur þeirra áframsendur á aðra starfsmenn DV.

Einnig kvartaði Reynir yfir því að Sigurður G. Guðjónsson hafi birt persónuupplýsingar um sig þegar hann sendi Birni Leifssyni, eiganda World Class, handrit af ævisögu sem Reynir hafði í smíðum og birti hluta af henni á Facebook-síðu sinni.

Handritsmálið varði tjáningarfrelsi og fjarskiptalög

Í úrskurði sínum fellst Persónuvernd á umkvartanir þremenninganna. DV ehf. hafi brotið lög og lagt er fyrir félagið að staðfesta með skriflegum hætti að að pósthólfum kvartendanna hafi verið lokað og að þeim hafi verið gefinn kostur á að yfirfara póstinn sinn.

Þeim hluta kvörtunarinnar sem laut að handriti Reynis sem Sigurður G. birti á Facebook-síðu sinni var hins vegar vísað frá. Persónuvernd taldi hann lúta að ákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og það sé dómstóla að skera úr um það. Þá falli það ekki undir hlutverk Persónuverndar um hvort að Sigurður G. hafi misnotað póst sem hann hafi fengið áframsendan með handritinu. Það framferði geti fallið undir ákvæði fjarskiptalaga og það sé Póst- og fjarskiptastofnunar að úrskurða um það.

Segir Sigurð G. þjófsnaut ef ekki þjóf

„Persónuvernd hefur staðfest að þarna hafi átt sér stað lögbrot. Þá liggur fyrir að næstu skref eru að byggja á þeim úrskurði og sækja rétt okkar þangað sem þarf. Þetta er þannig vaxið að það er ekki hægt að una því að vera rændur með þeim hætti. Nú erum við bara að kanna hvort að það hafi myndast skaðabótaábyrgð og þá hve há,“ segir Reynir sem telur niðurstöðuna mikinn sigur.

Hann segir að óumdeilt sé að farið hafi verið inn á tölvupósta fyrrverandi starfsmannanna og að Sigurður G. Guðjónsson hafi að minnsta kosti verið þjófsnautur ef ekki þjófur þar sem hann hafi birt hluta bókar Reynis á Facebook. Hann muni leita úrskurðar Póst- og fjarskiptastofnunar hvað það varðar.

Reynir var látinn fara eftir að nýir eigendur og stjórnendur tóku við DV síðasta haust. Í kjölfarið hætti fjöldi starfsmanna blaðsins.

Reynir Traustason, fyrrverandi ristjóri DV.
Reynir Traustason, fyrrverandi ristjóri DV. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert