Byrjaði gosið fyrr en talið var?

Gosið í Holuhrauni er enn öflugt eins og þetta skjáskot …
Gosið í Holuhrauni er enn öflugt eins og þetta skjáskot af vefmyndavél Mílu á Bárðarbungu klukkan 12:52 sýnir. Úr vefmyndavél Mílu

Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands telja mögulegt að eldgosið í Holuhrauni hafi byrjað fyrr en áður var talið. Þessa ályktun draga þeir út frá hitafrávikum sem koma fram á mælum.

Fram að þessu hefur verið talið að eldgosið hafi hafist skömmu fyrir kl. 6 í morgun. Að mati vísindamanna Jarðvísindastofnunar gæti gosið hafa byrjað á milli kl. 3:09 og 4:43.

Hraunflæðið í eldgosinu í Holuhrauni er nálægt þúsund rúmmetrar á sekúndu. Þetta er því talsvert mikið gos. Mikið magn kviku er í kvikuganginum, en vísindamenn hafa talið að þar séu nokkur hundruð milljón rúmmetrar af kviku.

Jarðvísindastofnun bendir á að framrás kvikugangsins undir Dyngjujökli sé hröðust samhliða eldvirkni í suðausturjaðri Bárðarbungu og virðist beintengd stóru skjálftunum í Bárðarbungu, en þessir skjálftar dæli kvikunni eftir ganginum rúmlega 40 km til norðnorðausturs og uppundir yfirborð í Holuhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert