Sigríður Björk mætt til starfa

Sigríður Björk Guðjónsdóttir mætti í morgun til vinnu sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Á móti henni tóku aðstoðarlögreglustjórarnir Hörður Jóhannesson og Jón H.B. Snorrason. Fór vel á með þeim en fyrsta verk Sigríðar Bjarkar var að taka við bréfpósti til lögreglustjórans.

Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir inn­an­rík­is­ráðherra skipaði í júlí Sig­ríði Björk í embættið, en hún fluttist frá embætt­inu á Suður­nesj­um þar sem hún hef­ur verið frá ár­inu 2009. Hún var aðstoðarrík­is­lög­reglu­stjóri á ár­un­um 2007–2008, sýslumaður á Ísaf­irði 2002–2006 og þar áður skatt­stjóri Vest­fjarðaum­dæm­is.

Í samtali við mbl.is þegar hún var skipuð sagði Sigríður Björk að gam­an yrði að koma á nýj­an stað og von­andi inn­leiða þau gildi sem höfð voru í heiðri á Suður­nesj­um. „Á Suður­nesj­um hef­ur áhersla verið lögð á bar­átt­una gegn heim­il­isof­beldi ásamt efl­ingu rann­sókna í kyn­ferðis­brota­mál­um og bú­ast má við svipuðum áhersl­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert