Leikskólastjórnendur sýndu stuðning sinn í verki

Frá mótmælunum hjá ríkissáttasemjara í morgun.
Frá mótmælunum hjá ríkissáttasemjara í morgun. mbl.is/Þórður

Samningaviðræður milli Félags stjórnenda leikskóla og Sambands íslenskra sveitarfélaga héldu áfram hjá ríkissáttasemjara í dag. Leikskólastjórnendur tóku höndum saman og mættu fyrir utan höfuðstöðvar sáttasemjara í morgun og sýndu þannig stuðning við samninganefndina og þær kröfur sem hún heldur á lofti. Um 150 félagsmenn mættu en heildarfjöldi félagsmanna er um 500. Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Heilsuleikskólans, segir mikinn samhug hafi verið í fólki og góð stemning hafi verið við völd.

Samningaviðræður hafa staðið yfir frá 31. janúar á þessu ári og að sögn Sigrúnar Huldu eru kröfur leikskólastjórnenda aðallega þær að laun þeirra sem sinna ábyrgðarstöðu innan leikskólanna hækki og þannig náist eðlilegt bil á milli launa stjórnenda og leikskólakennara.

Telur Sigrún mikilvægt að launin séu í samræmi við þá ábyrgð sem stjórnendur gegna því annars hafi enginn hag af því að sækjast í þau störf og auka þannig við sig ábyrgð í starfi. Hún hefur einnig áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur að fjöldi fagmenntaðra innan leikskólanna standast ekki lagakröfur sem kveða á um að fagmenntaðir séu að lágmarki 66% innan skólanna en segir hún hlutfallið vera um 34% nú.

„Ég vonast auðvitað til þess að það ilmi vöffluilmur hjá sáttasemjara í dag,“ segir Sigrún spurð út í framhald viðræðnanna og segist hún því bjartsýn á að kröfur þeirra nái fram að ganga þar sem henni „finnist þetta frekar einfalt reikningsdæmi og raunhæft.“

Margir félagsmenn Félags stjórnenda leikskóla nýttu kaffihlé sitt í morgun …
Margir félagsmenn Félags stjórnenda leikskóla nýttu kaffihlé sitt í morgun til að sýna samninganefnd félagsins samstöðu og mættu fyrir framan húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert