Ógnaði fólki með hníf

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan handtók mann á þriðja tímanum í nótt eftir að hann hafði ógnað fólki við verslun í Breiðholti. Maðurinn var vopnaður hnífi. Hann verður yfirheyrður síðar í dag.

Tilkynnt var innbrot í Breiðholtskirkju um miðnættið. Í ljós kom að rúða hafði verið brotin í kirkjunni en ekki brotist inn í hana. Málið er í rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um svipað leyti var tilkynnt innbrot í bifreið í Hraunbæ. Skömmu síðar var maður handtekinn í Rofabæ og var hann með þýfi meðferðis úr bifreiðinni. Hann gistir í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.

Einungis þremur mínútum eftir að tilkynning barst um innbrot í bifreiðina í Hraunbæ var tilkynnt um innbrot í aðra bifreið í sömu götu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom eigandi bifreiðarinnar að innbrotsþjófnum en missti af honum þar sem hann hljóp í burtu en náði aftur því sem hann tók úr bifreiðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert