Sveinn Andri krefur DV um skaðabætur

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður. Ljósmynd/Björn Blöndal

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, hefur krafið DV, Reyni Traustason ritstjóra blaðsins og Viktoríu Hermannsdóttur blaðamann um 10 milljónir króna vegna umfjöllunar um hann í helgarblaði DV í byrjun ágúst. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Sveins Andra, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. RÚV greindi frá málinu í morgun. 

Í kröfubréfi sem Vilhjálmur sendir fyrir hönd Sveins Andra kemur fram að „með umfjöllun DV hafi verið vegið með alvarlegum hætti að friðhelgi einkalífs umbjóðanda“ Vilhjálms og brotin varði við 229. gr. almennra hegningarlaga. Kröfubréfið má sjá í viðhengi með fréttinni. 

Veittur er frestur til 6. september til að bregðast við bréfinu, en að öðrum kosti verði höfðað dómsmál.

Greint frá fjölskylduhögum, kynlífi og þungun

„Málatvik eru á þá leið að í helgarblaði DV, föstudaginn 1. ágúst 2014, og í netútgáfu DV sama dag var umfjöllun um umbjóðanda minn. Umfjöllunin var aðalefni blaðsins með tilheyrandi uppslætti á forsíðu og opnuumfjöllun. Í umfjöllun DV var greint með mjög nákvæmum hætti frá viðkvæmum einkamálefnum umbjóðanda míns, s.s. fjölskylduhögum hans, kynlífi, hugsanlegri fóstureyðingu, getnaði og fæðingu barns og meðlagsgreiðslum auk birtingar á tölvupóstum og beinum tilvísunum í Facebook-samskipti umbjóðanda míns og tiltekins aðila,“ segir í kröfubréfinu. 

Farið er fram á að Reynir, Viktoría og DV greiði Sveini Andra 10 milljónir króna í bætur, að beðist verði afsökunar á umfjöllun DV og afsökunarbeiðnin verði birt í DV og á vef blaðsins, dv.is. 

Segir sögu stúlkunnar hafa átt erindi við þjóðina

Reynir Traustason, ritstjóri DV, staðfestir kröfu Sveins Andra í samtali við mbl.is. Hann segir að honum hafi þótt saga stúlkunnar eiga erindi við þjóðina, að opinber persóna hafi átt í ástarsambandi við 16 ára stúlku. Hann hyggst hvorki greiða bætur né biðjast afsökunar vegna málsins. 

Reynir segir að Sveini Andra hafi verið boðið að svara fyrir sig, hann hafi hafnað því. „Þetta boð stendur, að útskýra hvernig það kemur til að hann er í ástarsambandi við 16 ára stúlku.“

„Við erum að tala um opinbera persónu, mann sem hefur hnyklað vöðvana fyrir framan myndavélina og sóst eftir athygli fjölmiðla. Okkur fannst þetta eiga erindi við þjóðina,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.

Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Reynir Traustason, ritstjóri DV. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert