Óku með 3G sendi yfir hættusvæði

3G sendirinn á Vaðöldu.
3G sendirinn á Vaðöldu. Ljósmynd/Síminn

Tæknimenn frá Símanum urðu að aka yfir lokað hættusvæði til að koma fyrir búnaði við Vaðöldu, á milli Vatnajökuls og Öskju, á föstudag en búnaðurinn nýtist jarðvísindamönnum við eftirlit með gosinu í Holuhrauni. Þeir viðurkenna að verkefnið hafi verið stressandi enda hafi mátt búast við flóði.

Almannavarnir veittu starfsmönnum Símans leyfi til að fara inn á lokað svæðið og koma 3G sendi upp en það var gert eftir að Veðurstofan viðraði áhyggjur sínar um að uppfærsla fyrri sendisins úr GPRS í EDGE væri hugsanlega ekki nægileg fyrir öll gögnin. Jarðvísindamenn notast við mörg mælitæki á svæðinu og flest eru þau í farsímasambandi. Með því móti geta þeir fylgst með mælingum í rauntíma, í stað þess að safna upplýsingu og aka með þær til byggða til að vinna úr þeim.

Verkið unnu þeir Kristján Björnsson, rafeindavirki í farsímadreifikerfum hjá Símanum, og samstarfsfélagi hans, Magnús Benedikt Magnússon. Kristján segir að það hafi verið sérkennileg upplifun að fara um Herðubreiðarlindir, þar sem búast mátti við flóði.
„Við vissum ekki hvort flóðið kæmi niður á móti okkur og vorum því með eina Tetra talstöð með til að Almannavarnir gætu kallað okkur upp ef á þyrfti að halda,“ segir Kristján. „Það var sérstök upplifun að heyra í jarðfræðingum í talstöðvakerfinu þegar þeir voru að finna sigkatlana,“ segir hann og viðurkennir að þessi ferð hafi tekið á taugarnar.

Hann segir að verkið hafi gengið vel og að þeir hafi verið fljótið út af svæðinu þegar samband var komið á sendinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert