Sala áfengis aukist á milli ára

Heiðar Kristjánsson

Sala á áfengi hefur aukist um 2,7% í lítrum ef fyrstu átta mánuðir þessa árs eru bornir saman við fyrstu átta mánuði síðast árs að sögn Sigrúnar Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR.

„Sala um verslunarmannahelgi hefur mikil áhrif á sölu í júlí og ágúst og getur oft verið erfitt að bera þessa mánuði eina og sér saman við sambærilegt tímabil fyrra árs. Því tek ég saman júlí og ágúst og þá sést að salan það tímabil er 0,5% meiri nú en sömu mánuði í fyrra,“ segir hún en eins og flestir vita lendir aðdragandi verslunarmannahelgarinnar oft í kringum mánaðarmótin júlí/ágúst og því varla marktækt að bera saman mánuðina á milli ára.  

„Salan er skoðuð eftir flokkum, það er bjór og svo létt og sterkt áfengi. Salan á bjór hefur aukist um 3,3% á milli ára þegar litið er til fyrstu átta mánuði ársins, sala á léttvíni um 1,2% en sala á sterku áfengi hefur dregist saman um 1,3%. Eins og áður sagði hefur salan aukist um 2,7% í heildina í lítrum talið fyrstu átta mánuði ársins,“ segir Sigrún Ósk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert