Fleiri ferðamenn en allt árið 2012

Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur.
Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Tæplega 700 þúsund ferðamenn hafa heimsótt landið frá áramótum og er það meiri fjöldi en allt árið 2012, og enn er þriðjungur eftir af árinu. Ferðamenn í nýliðnum ágúst voru 153.400 og aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér í ágúst og nú og raunar aldrei fleiri í einum mánuði frá upphafi. Þetta kemur fram í tölfræði Ferðamálastofu.

Ferðamenn voru ríflega þrisvar sinnum fleiri í ágúst í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002, þegar talningar Ferðamálastofu hófust. Fjölgun hefur verið öll ár á þessu tímabili, að árinu 2010 frátöldu, og tvívegis hefur þeim fjölgað álíka á milli ára en nú, þ.e. í ágúst 2003 og 2007. Sex sinnum á þessu tímabili hefur fjölgunin verið yfir 10% á milli ára.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Frökkum, Kanadamönnum, Kínverjum, Ítölum og Spánverjum mest. Þessar sex þjóðir voru með um helming af fjölgun ferðamanna í ágúst.

Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá góða fjölgun frá öllum svæðum. Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mest en þeir hafa hátt í þrefaldast. Bretar og þeir sem taldir eru sameiginlega undir „Annað“ hafa u.þ.b. tvöfaldast. Líkt og undanfarin ár eru ferðamenn frá Mið- og Suður-Evrópu fjölmennastir í ágúst og þeim hefur fjölgað um 50% frá 2010. Norðurlandabúum hefur fjölgað sýnu minnst frá árinu 2010, um 17%.

Það sem af er ári hafa tæplega 700 þúsund farið frá landinu um Keflavíkurflugvöll, nánar tiltekið 699.810 eða um 133 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 23,5% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert