Gosmökkurinn sést vel utan úr geimi

Gosmökkurinn greinist vel á þessari samsettu NOAA AVHRR og MODIS …
Gosmökkurinn greinist vel á þessari samsettu NOAA AVHRR og MODIS mynd frá NASA. mynd/Jarðvísindastofnun HÍ og NASA

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur birt gervitunglamynd frá bandarísku geimvísindastofnuninni (NASA) sem sýnir gosmökkinn frá gosstöðvunum frá Holuhrauni vel. Myndin var tekin í hádeginu.

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom m.a. fram, að spár gefi til kynna að hár styrkur brennisteinsgasa gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra.

Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast á vedur.is.

Mikið gasstreymi er í og í kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert