Ísland fjárfestir minnst í menntun

Námskynning við Háskólann í Reykjavík.
Námskynning við Háskólann í Reykjavík. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ísland fjárfestir minnst allra Norðurlandanna í hverjum nemanda innan menntakerfisins samkvæmt skýrslu OECD, Education at a glance. Sá hluti skýrslunnar sem fjallar um fjárfestingu í menntun miðar við árið 2011, en þá notaði íslenska ríkið 9.180 (1,098 milljón ISK) bandaríkjadali í menntun hvers nemanda árlega. Sú upphæð er nokkuð lægri en meðalútgjöld Norðurlandaþjóðanna á nemanda og er einnig fyrir neðan meðaltal OECD sem var 9.487 bandaríkjadalir (1,135 milljón ISK).

Útgjöld íslenska ríkisins til menntunar hafa minnkað jafnt og þétt á síðustu árum sé litið til útgjaldanna sem prósentu af vergri landsframleiðslu. Frá árinu 2000 hafa útgjöld til menntamála mest verið 7,8% árið 2009 en árið 2011 hafði talan lækkað niður í 7,4%. 

Fjárfesting Íslands á hvern nemanda er nokkuð jöfn þvert á skólastig en minnstu er eytt á hvern framhaldsskólanema og mestu á hvern grunnskólanema. Fjárfesting í hverjum nemanda leik- og grunnskólanna er yfir meðaltali OECD og með þeim hærri á Norðurlöndunum. Fjárfesting í framhaldsskólum er hinsvegar rétt undir meðaltali OECD og fjárfesting í Háskólum er 38% lægri en meðalfjárfesting innan OECD og 50% lægri en meðalfjárfesting Norðurlandanna.

Mikil skráning í leikskóla

Þrátt fyrir að lítið fjármagn sé sett í hvern nemanda sé litið yfir menntakerfið í heild eru útgjöld ríkisins á hvert barn í leik- og grunnskólum með þeim hærri á Norðurlöndunum. Árið 2011 nýtti íslenska ríkið 9.138 bandaríkjadali (1,093 milljón ISK) á ári í menntun hvers leikskólabarns og 10.339 bandaríkjadölum (1,244 milljón ISK) í menntun hvers grunnskólabarns. Samkvæmt skýrslu OECD voru útgjöld Íslands á hvert barn í þessum flokkum þau önnur hæstu á Norðurlöndunum það ár.

Hátt hlutfall barna á Íslandi er skráð í leik- og grunnskóla samanborið við önnur lönd innan OECD. Raunar er Ísland í fjórða sæti, ásamt Noregi og Spáni, þegar kemur að skráningu þriggja til fjögurra ára barna í leikskóla. Árið 2012 voru 96% þessa hóps í leikskólum en meðaltalið innan OECD ríkjanna var 76%.

100% munur milli Íslands og Norðurlandanna

Hinsvegar leggur íslenska ríkið til minnst fjármagn allra Norðurlandanna þegar kemur að menntun á framhalds- og háskólastigi eða 8.470 bandaríkjadali (1,013 miljón ISK) á hvern framhaldsskólanema og 8.612 bandaríkjadali (1,030 milljón ISK) á hvern háskólanema.

Fjárfesting íslenska ríkisins er rétt undir meðalfjárfestingu OECD ríkjanna þegar kemur að menntun á framhaldsskólastigi en langt undir meðalfjárfestingu innan OECD á háskólastigi en sú var 14.000 bandaríkjadalir (1,675 milljón ISK). Munaði því sem samsvarar um 645 þúsund íslenskum krónum á fjárfestingu Íslands og meðalfjárfestingu OECD í hverjum háskólanema árið 2011 og var sú síðarnefnda því um 62% hærri. 

Samanburðurinn er enn óhagstæðari þegar kemur að fjárfestingu nágrannalandanna í menntun árið 2011. Noregur varði yfir 18.000 bandaríkjadölum (2,153 milljón ISK) í menntun hvers háskólanema árið 2011 og sama gilti um Finnland. Fjárfesting Danmerkur í hverjum háskólanema nam um 21.000 bandaríkjadölum (2,512 milljón ISK) á hvern háskólanema og Svíþjóðar um 20.000 (2,393 milljón ISK). Meðalfjárfesting Norðurlandanna í hverjum háskólanema var því um það bil 17.000 bandaríkjadalir (2,033 milljón ISK) eða 100% hærri en fjárfesting Íslands.

96% þriggja til fjögurra ára barna voru skráð í leikskóla …
96% þriggja til fjögurra ára barna voru skráð í leikskóla árið 2011. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Minnst er greitt með hverjum framhaldsskólanema.
Minnst er greitt með hverjum framhaldsskólanema. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert