Munu snúa aftur þrátt fyrir lífshættulegt slys

Kominn heim til Hollands. Jans og Elsje í stofunni heima.
Kominn heim til Hollands. Jans og Elsje í stofunni heima.

Vindurinn feykti okkur af veginum og við lentum ofan í skurði sem var þar við hliðina á. Ég rotaðist, veit ekki hve lengi og hélt ég væri í lagi þegar ég rankaði við mér.

Mér var illt, ég gat hreyft höfuðið og gat gengið en ég fann ekki konuna mína. Engin orð geta lýst því hvernig mér leið á þessu augnabliki – að uppgötva að við höfðum lent í slysi og finna ekki konuna sem maður er búinn að vera giftur í 31 ár.“

Hollendingurinn Jan Luijk og kona hans Elsje lentu í alvarlegu mótorhjólaslysi hinn 13. ágúst á Snæfellsnesi og þurfti þyrla Landhelgisgæslunnar að sækja hjónin. Þau Jan og Elsje komu með Norrænu hingað til lands frá Færeyjum og ætluðu að keyra hringinn í kringum landið á Honda Goldwing 1800 mótorhjólinu sínu. Jan er 58 ára og Elsje tveimur árum yngri.

„Við ákváðum að fara til Íslands því við elskum Skandinavíu og landslagið sem þar er að finna. Náttúran er svo ótrúleg á þessum stöðum og fólkið jafnvel ótrúlegra. Við áttum eftir að keyra um Færeyjar og Ísland og ákváðum að gera það í þessu sumarfríi,“ segir Jan. Þau höfðu verið á ferð í sex daga þegar slysið varð. Þegar þau komu í Borgarnes á sjötta degi lá leiðin á Snæfellsnes þar sem þau gistu í tvo daga og nutu lífsins. Það átti eftir að breytast þegar þau stigu á hjólið.

Áttu aldrei séns

„Þegar við vöknuðum að morgni þessa dags man ég að veðrið var fallegt. En vindurinn uppi á vegi blés kröftuglega. Við ætluðum að keyra til Reykjavíkur og vera þar í tvær nætur, það var áætlunin.

Það er allt í lagi að keyra mótorhjól í vindi svo framarlega sem hann kemur beint á mann – og þannig var hann fyrst. En skyndilega fór að blása frá vinstri,“ segir Jan og verður alvarlegri.

„Mótorhjólið er stórt og þungt með lokuðum hliðum. Í hliðarvindi þarf maður svolítið að halla sér upp í vindinn og þannig keyrðum við í smástund. Allt í einu lægði vindinn og það varð logn. Ég varð að hafa mig allan við til að rétta hjólið af – annars myndum við detta.

Þegar ég var að reyna að rétta hjólið af og allt virtist vera fallið í ljúfa löð kom ofsalega öflug vindkviða, helmingi öflugri en það sem við höfðum verið að keyra í og við áttum aldrei möguleika. Við keyrðum út af.“

Bílstjóri fyrstur á vettvang

Þegar Jan hafði raknað úr rotinu gerði hann sér ekki grein fyrir hversu alvarlega slasaður hann væri. Fyrsta hugsun var að finna Elsje og koma henni til hjálpar. „Ég fór að leita að henni, fann að mér var illt í ökklanum og var svolítið ringlaður. Ég heyrði hana kalla þar sem hún lá á grasbala við skurðinn.“

Fyrstur til að koma á vettvang var flutningabílstjóri sem Jan veit ekki hvað heitir en hann verður þessum ókunnuga manni ávallt þakklátur. „Hann er okkar fyrsti engill í þessu. Af mörgum. Hann hringdi í 112 og beið eftir sjúkrabílnum með okkur.

Hann kvaðst ekki mundu yfirgefa okkur og það er erfitt að útskýra en sú setning var mér mikilvæg. Það kom einhver ró yfir mig. Hann náði í teppi handa okkur og passaði vel upp á okkur.“

Þegar sjúkrabílarnir komu var ljóst að hjónin voru alvarlega slösuð og þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til. Flutti þau Jan og Elsje til Reykjavíkur. „Við komumst allavega til Reykjavíkur – reyndar ekki á þeim fararskjóta sem við óskuðum okkur en samt,“ segir Jan og getur ekki annað en brosað.

Alvarlegir áverkar

Þegar þyrlan lenti við Landspítalann voru þau skoðuð af læknum. „Elsje var mjög alvarlega slösuð og þurfti að fara í aðgerð til að stöðva innvortis blæðingu. Hún var með fimm brotin rif, vinstra herðablaðið var brotið, miltað skemmt, ósæðin líka og lungað rofið. Eftir að læknar rannsökuðu mig, fundu þeir út að vinstri ökklinn var brotinn og að það var brot í 6. hálshryggjarlið. Þannig að þetta var alvarlegt en ég þurfti ekki á umönnun að halda.

Elsje var þrjá daga á gjörgæsludeildinni en hún var flutt á Hringbraut þar sem hún var til 28. ágúst. Þá var hún orðin nógu sterk fyrir flug og okkur var leyft að fljúga heim.“

Jan segir að hann þakki æðri máttarvöldum fyrir lífgjöfina sem og íslensku heilbrigðiskerfi. „Við þökkum Guði hvern einasta dag að hafa lifað þetta slys af, sem og öllu læknaliðinu sem hjálpaði okkur. Án vörubílstjórans, sjúkrabílsins, lögreglunnar, þyrlunnar, læknanna og hjúkrunarfólksins hefðum við trúlega ekki geta farið heim til barna og barnabarna okkar.“

Fóturinn í gifsi og hálsinn í kraga

Í dag eru þau Jan og Elsje að braggast en það mun líða langur tími þar til þau verða alveg laus við verki. „Nú erum við kominn heim til Hollands, til barna okkar, barnabarna og vina. Ég er enn með kraga utan um hálsinn og fóturinn er enn í gifsi en ég vonast til að losna við þetta dót eftir tvær vikur. Elsje er að vinna í að hreyfa handlegginn og að draga djúpt andann og öndunin hjá henni er að skána með hverjum deginum.“

Vilja ljúka hringnum

Þrátt fyrir slysið segir Jan að þau muni koma aftur. Suðurlandið með öllum sínum töfrum er eftir. „Við viljum ljúka við ferðina sem hófst sjöunda ágúst. Við sáum ótrúlegt landslag en eigum Suðurlandið alveg eftir. Við munum koma aftur. Hvenær það verður á eftir að koma í ljós – en ætli við förum þá ekki bara á bíl,“ segir Jan brosandi út að eyrum.

Hjónin upp a Hverfjalli í Mývatnssveit.
Hjónin upp a Hverfjalli í Mývatnssveit.
Honda mótorhjól þeirra hjóna.
Honda mótorhjól þeirra hjóna.
Elsje að hringja heim.
Elsje að hringja heim.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert