Virkni enn í miðgígnum Baugi

Kvikustróka úr gígnum sem er nefndur Baugur.
Kvikustróka úr gígnum sem er nefndur Baugur. Af Facebooksíðu Jarðvísindastofnunar

Jarðskjálftar mældust í nótt á svipuðum slóðum og síðustu daga, í Bárðarbungu, í ganginum undir Dyngjujökulssporðinum og við Herðubreiðartögl og Herðubreið. Um fjörutíu jarðskjálftar mældust á umbrotasvæðinu.

Þetta kemur fram á vefsvæði Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig að stærsti skjálftinn hafi mælst rétt um 3,5 að stærð klukkan 01.47 í Bárðarbungu.

„Eftir því sem best verður séð á vefmyndavélum í nótt og fram til klukkan 06.10 í morgun er virkni á gosstöðvunum svipuð og í gær, virkni í miðgígnum, Baugi.“

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur reiknað út bæði seigju og hita út frá efnasamsetningu kvikunnar.

Ég hef notfært mér efnagreiningar Jarðvísindastofnunar Háskólans af Holuhrauni hinu nýja til að ákvarða þessa eðlisþætti kvikunnar,“ segir hann á vefsvæði sínu. Þar kemur fram að hitinn á nýja hrauninu sé um 1.175 til 1.180 gráður, heitari en kvikan sem kom upp á Fimmvörðuhálsi og úr toppgíg Eyjafjallajökuls í gosinu árið 2010.

Þá er kvikan sem kemur upp í Holuhrauni með seigju um 1.54 Ln Pa á sekúndu sem þýðir að hún er nálægt seigjunni á hunangi eða jafnvel enn meira fljótandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert