Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í Norræna húsið

Norræna húsið er við Sturlugötu 5 í Reykjavík.
Norræna húsið er við Sturlugötu 5 í Reykjavík.

Embættisnefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar ákvað á fundi sínum 11. september sl. að skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði hér eftir í Norræna húsinu í Reykjavík.

Skrifstofan hefur umsjón með verðlaununum í samstarfi við norræna dómnefnd þeirra. Þetta var tilkynnt í Norræna húsinu nú fyrir hádegi.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru meðal þekktustu og virtustu bókmenntaverðlauna heims sem veitt eru innan afmarkaðra tungumálasvæða og skipa sér þar í flokk verðlauna eins og Booker-verðlaunanna sem veitt eru á engilsaxnesku málsvæði og Goncourt-verðlaunanna frönsku.

Bokmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt árlega síðan 1962 bókmenntaverki skrifuðu á einu norrænu tungumálanna. Meðal höfunda sigurverkanna eru margir af fremstu rithöfundum Norðurlandanna á undanförnum áratugum.  Íslensk verk hafa sjö sinnum hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Norræna húsið í Reykjavík mun því héðan í frá annast daglega umsjón beggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en fyrir er í húsinu skrifstofa Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Þetta er mikil alþjóðleg viðurkenning á bókmenntastarfsemi Norræna hússins og styrkir enn stöðu hússins sem norrænnar bókmenntamiðstöðvar.

Norræna húsið hefur frá upphafi verið í leiðandi hlutverki í bókmenntalífi Íslendinga. Það er stofnaðili og vettvangur tveggja stærstu bókmenntahátíða landsins: Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Mýrarinnar - alþjóðlegrar barna- og unglingabókmenntahátíðar í Reykjavík. Í Norræna húsinu er stærsta bókasafn sinnar tegundar á Norðurlöndum og húsið hefur nú yfirumsjón með sérstöku átaki Norrænu ráðherranefndarinnar um barna- og unglingabókmenntir. Norræna húsið stendur auk þess fyrir fjölda stakra bókmenntaviðburða allt árið um kring.

Norræna húsið hefur haft þá markvissu stefnu í tíð Max Dagers, núverandi forstjóra, að leitast eftir auknu hlutverki sem alþjóðleg bókmenntamiðstöð með sérstakri áherslu á Norðurlönd.

Norræna húsið mun halda áfram þessu starfi við að festast enn betur í sessi sem miðstöð norræns bókmenntastarfs og eflast sem bókmenntavettvangur á alþjóðavísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert