Vill styrkja lagningu ljósleiðara

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, vill styrkja lagningu ljósleiðara á Vestfjörðum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, vill styrkja lagningu ljósleiðara á Vestfjörðum. Eggert Jóhannesson

Umhverfis- og samgöngunefnd funduðu í gær um fjarskiptamál á Vestfjörðum en eins og kunnugt er var stór hluti Vestfjarða sambandslaus í margra klukkutíma 26. ágúst sl. þegar bilun kom upp í búnaði Mílu og farsímakerfis Símans.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, var til andsvara við sérstaka umræðu á Alþingi þegar öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging á háhraðatengingu í dreifbýli var til umfjöllunar líkt og kemur fram í frétt innanríkisráðuneytisins.

Hanna Birna kvaðst hafa lagt til við fjarskiptasjóð að styrkja lagningu ljósleiðara milli Súðavíkur og Brúar í Hrútafirði og myndi slík hringtenging bæta rekstraröryggi almennra fjarskipta og neyðarfjarskipta á því svæði. 

Óljóst hvenær hringtenging Vestfjarða lýkur

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi og spurði ráðherra meðal annars hvernig hún hygðist bregðast við því ástandi þegar bilun varð hjá fjarskiptafyrirtækjum Mílu og Símanum. Þá spurði þingmaðurinn ráðherra hvor rannsókn væri hafin á hvað olli biluninni, hvenær kortlagningu lyki og þarfagreiningu á uppbyggingu háhraðaneta, hvenær hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum muni ljúka og hvenær slík háhraðatenging muni standa öllum landsmönnum til boða.

Sagði ráðherra að bilunin hafi orðið í ljósleiðarabúnaði Mílu sem varð til þess að samband viðskiptavina Mílu, þar á meðal Símans, á Vestfjörðum rofnaði. Á sama tíma lá varasamband Mílu um örbylgjusamband niðri vegna bilunar.

Bilunin hafði engin áhrif á þjónustu Vodafone á svæðinu og heimilaði fyrirtækið farsímanotendum Símans aðgang að sendum sínum á meðan að tengingin var niðri. Þá sagði Hanna Birna samvinnu Vodafone við farsímanotendur Símans í þessum erfiðu aðstæðum vera til eftirbreytni.

Í svari sínu sagði ráðherra einnig að Póst- og fjarskiptastofnun færi með eftirlit með fjarskiptum á Íslandi og stofnunin kalli eftir skýrslu um stærri bilanir ef þörf þykir. Þá sagði hún of snemmt að svara því hvenær hringtenging Vestfjarða lyki en ljóst væri að slík tenging myndi efla fjarskiptaöryggi á svæðinu til muna.

Frétt mbl.is: Búnaðurinn sem bilaði var gamall

Frétt mbl.is: Síminn biður Vestfirðinga afsökunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert