Stóri stafurinn orðinn plássfrekur

Þarna á ókeypis klárlega ekki að vera með stórum staf.
Þarna á ókeypis klárlega ekki að vera með stórum staf.

Víða er stóran staf að finna í íslenskum auglýsingum og á skiltum þar sem notkun hans tíðkast ekki. Dæmi eru um slíkan rithátt bæði hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Ritun stórs stafs og lítils virðist vera á reiki þegar kemur að embættum og þeim einstaklingum sem gegna þeim og ekki er alltaf ljóst um hvort er verið að tala. Þegar um einstaklinginn er að ræða á ótvírætt að vera lítill stafur. Þegar verið er að tala um embættið kemur aftur á móti upp spurning um það hvað embættið eða stofnunin heitir. Dæmi um slíkt er, heitir það „Umboðsmaður Alþingis“ eða „Embætti umboðsmanns Alþingis?“ Hið síðarnefnda er rétt.

Almenningi er í sjálfu sér ekki skylt að fara eftir auglýsingu menntamálaráðuneytisins um íslenska stafsetningu og greinarmerkjasetningu frá 1974 og 1977. Reglurnar gilda þó m.a. í skólum og um útgefin embættisgögn.

„Mín tilfinning er sú að þetta hafi aukist en það væri gaman að skoða blöð 20 til 30 ár aftur í tímann og bera saman,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, spurður út í notkun stórs stafs í ýmsum auglýsingum og á skiltum.

Eiríkur bendir á að ástæðurnar fyrir rangri notkun stórs stafs í venjulegum orðum, mánaðaheitum og heitum vikudaga geti verið þó nokkrar. Þarna gætir áhrifa frá ensku þar sem mánaðaheiti og vikudagar eru skrifuð með stórum staf. Hann veltir því einnig upp að þetta gæti verið spurning um grafíska hönnun og útlit auglýsinga. Víxl stórra og lítilla stafa fanga meira athygli fólks. Dæmi eru um að fyrirtæki kjósi að skrifa stóran staf inni í samsettum orðum.

Eiríkur segist ekki hafa orðið var við óvenjulega notkun stórs stafs í ritgerðum nemenda, nema þá í mánaðaheitum og heitum vikudaga. Það má jafnvel rekja til þess að mörg ritvinnsluforrit eru stillt miðað við ensku og setja þau stóran staf sjálfvirkt á þessum stöðum sem ekki allir taki út.

Reglurnar ekki einfaldar

Reglur um stóran og lítinn staf eru ekki einfaldar og erfitt að setja slíkar reglur á ótvíræðan hátt, segir Eiríkur. Sérnöfn á alltaf að rita með stórum staf en vandinn er sem sagt sá að skilgreiningin á sérnafni er ekki einföld.

Dæmi um þetta er námskeiðsheiti eins og miðaldabókmenntir. „Á það að vera með stórum eða litlum staf? Í þessu tilviki er ekki endilega einfalt að greina á milli,“ segir Eiríkur og bendir á að skilningur og tilfinning ráði oft rithættinum.

Þegar Stafsetningarorðabókin kom út árið 2006 var þar einnig að finna leiðbeiningar um stafsetningu sem byggjast á auglýsingum um íslenska stafsetningu og greinarmerkjasetningu frá 1974 og 1977.

Eiríkur segir að notkun á stórum staf þar sem hann eigi ekki að vera fari vissulega í taugarnar á sér. „En ef þetta væri mesta hættan sem steðjaði að íslenskri tungu þá værum við í góðum málum.“ Hann segir einstaka slettur, afbrigðilegan rithátt og aðrar ambögur ekki hafa víðtæk áhrif á tungumálið.

Ef íslenskan hætti hins vegar að vera nothæf á einhverjum sviðum og annað tungumál tæki yfir væri hætta á ferðum. Í þessu samhengi bendir hann á enskuna sem notuð er í tölvuumhverfi. Þróunin er sú að tölvunum sé stjórnað með mannamáli. Spurningin er á hvaða máli það er og það er mikilvægt að íslenskan sé gjaldgeng á því sviði. Þegar tölvurnar voru að ryðja sér til rúms hér á landi um 1985 þá voru ritvinnsluforrit á íslensku, „annað datt fólki ekki í hug. Nú nota margir ritvinnsluforrit á ensku þó íslenskt sé í boði,“ segir Eiríkur.

Íslenskan notuð á öllum sviðum

Hann segir að notkun tungumálsins til að stjórna tölvum eigi eftir að aukast ört á næstu árum og nauðsynlegt sé að átta sig á afleiðingum þess fyrir íslenska tungu. „Ég líki þessu við hlýnun jarðar. Ætlum við að bregðast strax við eða eftir 20 til 30 ár þegar skaðinn er skeður og við höfum misst ákveðin svið til annars tungumáls,“ segir Eiríkur og bætir við að íslenskan standi sterkt en sé viðkvæm ef við missum mikilvægt svið.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur nú skipað nefnd um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni, í framhaldi af þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í vor. Nefndin á að skila tillögum fyrir árslok. Eiríkur situr í nefndinni.

Á síðu sem nefnist Stóri stafurinn að troða sér má sjá fleiri dæmi um ranga notkun á stórum staf.

Vikudagana á að skrifa með litlum staf.
Vikudagana á að skrifa með litlum staf.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert