Von á kulda og hvössu veðri

Von er á kulda, rigningu og roki.
Von er á kulda, rigningu og roki. Eggert Jóhannesson

Von er á heldur svalari suðlægum áttum á næstunni og búast má við því að síðari hluti september verði töluvert kaldari en fyrri hluti mánaðarins. Þetta segir veðurfræðingurinn Trausti Jónsson og bætir við að fyrri helmingur september hafi verið hlýr.

Trausti skrifar um komandi suðlægar átti á vefsvæði sitt„Fyrri helmingur september hefur verið hlýr, meðalhiti ofan meðaltals síðustu tíu ára um land allt. Hlýindin hafa að tiltölu verið mest austanlands. Þar hefur hitinn verið meir en 3 stig ofan meðallagsins 2004 til 2013 og fjórum til fimm stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990. En mikil hlýindi standa ekki endalaust. Nú lítur út fyrir að síðari hluti mánaðarins verði ívið kaldari - líka miðað við meðallag,“ segir hann meðal annars.

Þá fengust þær upplýsingar hjá Veðurstofu Íslands að eðlilegt sé að veður fari kólnandi á þessum árstíma en að ekki sé von á miklum hitabreytingum næstu fimm dagana. „Þetta verða sirka átta til þrettán stig að degi til og um er að ræða suðlægar áttir. Við erum heldur ekki að sjá mikið næturfrost í kortunum. Það er helst að það verði kalt í innsveitum norðanlands um helgina,“ segir veðurfræðingur Veðurstofunnar og bætir við að örlítið frost verði í innsveitum norðan- og austalands aðfaranótt sunnudags.

„Svo er lægð á leiðinni og næstu dagar verða því nokkuð vætusamir. Á sunnudaginn kemur lægð upp að landinu og það getur orðið mjög hvasst fyrir sunnan og vestan og öflug úrkoma sunnan til,“ segir hann að lokum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert