Enn gæti gosið undir Vatnajökli

Enn er hætta á flóði og byggir það hættumat á …
Enn er hætta á flóði og byggir það hættumat á því að enn getur gosið undir Vatnajökli. Ljósmynd/Guðmundur K. Sigurdórsson

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með líkum hætti og undanfarna daga. Sig í öskju Bárðarbungu heldur áfram með svipuðum hætti. Skjálftavirkni hefur verið nokkuð öflug síðasta sólarhringinn. Í gær mældust 13 skjálftar í öskju Bárðarbungu. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun. 

Sá stærsti mældist M5,2 kl. 18:09 í gærkvöldi. Alls mældust 7 skjálftar stærri en M3,0 frá síðasta fundi vísindamannaráðs. Smærri skjálftar mældust í Dyngjujökli og norðurhluta berggangsins. GPS mælingar sýna áfram óreglulegar jarðskorpuhreyfingar líkt og síðustu daga. Þessi merki geta verið vísbendingar um að kvikuflæðið undir Bárðarbungu sé að breytast.

Enn er hætta á flóði og byggir það hættumat á því að enn getur gosið undir Vatnajökli.

Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu mála: 

  • Gosið í Holuhrauni fjarar út og öskjusig í Bárðarbungu hættir.

  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.

  • Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Í dag má búast við gasmengun á norðanverðu hálendinu vestur að Langjökli, norður til
Skagafjarðar og inn á Húnaflóa. Á morgun (föstudag) er hætt við gasmengun á Norðurlandi frá Ströndum til Eyjafjarðar, á norðanverðu hálendinu og A- lands sunnan Egilsstaðar og suður til Hornafjarðar. Ekki er hægt að útiloka að mengunarinnar verði vart á stærra svæði. Gildir til miðnættis á morgun, föstudag. 

Verið er að gera ráðstafanir til að auka vöktun og mælingar á SO2 í byggð. Mikilvægt er að fylgjast með styrk SO2 í andrúmsloftinu og eru íbúar hvattir til að fylgjast með vindátt og áhrifasvæði loftmengunar á vef Veðurstofunnar.

Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is.

Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni www.loftgæði.is Veðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast. 

Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna. www.ust.is og www.landlaeknir.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert