„Engin lög virt hér á landi“

Sturla Jónsson.
Sturla Jónsson.

„Þetta snýst um það að nú er verið að biðja um nauðungarsölu hjá mér, en Íslandsbanki byggir þetta á kröfuskjali sem hvorki ég né konan mín höfum skrifað undir. Það er heldur ekki þinglýst á húsið mitt,“ segir Sturla Jónsson, en myndbönd hans, sem sýna samskipti hans og sýslumanns hafa vakið mikla athygli á Youtube síðustu daga. Sturla telur að hann verði borinn út á miðvikudaginn ef ekkert breytist.

„Embættismaður hjá sýslumanninum hringdi í mig á föstudaginn og það lítur út fyrir það að hann sé að reyna að fresta þessu eins og hann getur, eða jafnvel hætta við þetta. Hann veit að ef hann heldur áfram með þetta festist hann sjálfur í glæpnum,“ segir Sturla en hann segir að búið sé að fremja fyrstu nauðungarsöluna hjá Sturlu og var það gert vegna skjals sem hann hefur aldrei skrifað undir. „Það er glæpur,“ segir Sturla. 

Sturla segist vita að Íslandsbanki hafi tekið af fólki af þessum sömu forsendum. „Þetta er komið inn til lögreglu og þeir ætla að rannsaka málið,“ segir Sturla. Aðspurður hvort lögreglan hafði heyrt um álíka mál svaraði Sturla neitandi. „Það virðist engin umræða hafa komið upp um þetta fyrr en ég byrjaði að taka upp myndböndin.“

Að sögn Sturlu er sýslumaður augljóslega að fela eitthvað, en hann segir að nú sé stranglega bannað að taka upp á skrifstofu hans. „Til hvers er það? Það er til þess að fela glæpinn,“ segir Sturla.

Las sér til um lög og reglur

Sturla segist hafa ákveðið að taka upp fundi sína við sýslumann eftir að hann fór að lesa sér til um lög og reglur. „Ég hef verið að lesa mér til og ég hef lært eitt. Það eru engin lög virt hér á landi. Á hljóðupptöku bið ég sýslumann um að fara eftir 73. grein nauðungarsölulaga sem segir  að ef upp kemur ágreiningur á að vísa í héraðsdóm. Sýslumaðurinn segir einfaldlega, „Það er ekki til umræðu hér.“ Þetta er til á upptöku.“

Um áætlun næstu daga segist Sturla ætla að bíða átekta. „Ég þarf að sjá hvernig embættismaðurinn sem ég talaði við í símann og sýslumaðurinn, Guðmundur Sophusson ætla að bregðast við þessu.“

Sturla gagnrýnir einnig að Guðmundur sé sýslumaður í þessu máli, en bróðir hans, Friðrik Sophusson, fyrrum ráðherra, er nú stjórnarformaður Íslandsbanka. „Þetta er ólöglegt. Það er ekki heimild fyrir því að maður sendi kröfu á bróðir sinn sem er sýslumaður og innheimtir kröfu fyrir sig.“

Sturla segist ánægður með viðbrögðin við myndböndunum og segir þau hafa verið gífurlega mikil.

„Þetta er komið út um allt. Það er búið að skoða myndböndin rúmlega 3000 sinnum. Það lítur út fyrir að fólk sé ánægt með þetta hjá mér.“

Hér má sjá myndbönd Sturlu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert