Lög um nauðungarsölu samþykkt

Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp innanríkisráðherra um frestun nauðungarsölu. Í frumvarpinu kemur fram, að sýslumaður skuli að fullnægðum ákveðnum skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta nauðungarsölum fram yfir 1. mars 2015.

Við lögin hefur nú bæst nýtt ákvæði til bráðabirgða, en það er svohljóðandi:

„Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola sem sótt hefur um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána um að fresta fram yfir 1. mars 2015 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. mars 2015. Hafi uppboði lokið en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola og að fengnu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda að fresta frekari vinnslu málsins fram yfir 1. mars 2015.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert