Spyr um greiðslur til rannsóknarnefnda

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 …
Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Á myndinni sést Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar. mbl.is/Kristinn

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram þrjár fyrirspurnir til forseta Alþingis þar sem Karl óskar eftir upplýsingum um greiðslur í tengslum við störf þriggja rannsóknarnefnda Alþingis.

Karl óskar eftir því að fá að vita hvaða greiðslur nefndarmenn fengu fyrir störf sín í rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008, rannsóknarnefnd um fall sparisjóðanna og rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð.

Farið er fram á skrifleg svör og óskað er eftir því að fá að vita hvaða tímafjöldi hafi legið að baki greiðslum til hvers og eins og hvert tímakaupið hafi verið. 

Þá er spurt, hvert hafi verið fyrirkomulag greiðslna til nefndarmanna og annarra sem tengdust henni.

Einnig er spurt, hvort lögaðilum í eigu nefndarmanna, eða tengdum þeim, hafi verið greitt fyrir störf fyrir nefndina. 

Loks er spurt, hverjir aðrir en nefndarmenn hafi fengið greitt fyrir störf í tengslum við störf rannsóknarnefndanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert