Flókin gasspá fyrir næstu daga

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. mbl.is/RAX

Fram til sunnudags má búist við lægðagangi yfir landinu með tilheyrandi breytingum á vindátt. Gasspá vegna eldgossins í Holuhrauni er því flókin og erfitt getur verið að henda reiður á því hvar mengunin er og hvert hún stefnir. Gasið staldrar hins vegar ekki lengi við á hverjum stað.

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama hætti og síðustu daga og sjást engin merki um að það sé í rénun. Hraunflákinn heldur áfram að stækka og ekkert hefur dregið úr hraunrennsli. Sig öskju Bárðarbungu heldur áfram á svipuðum hraða og verið hefur.

Skjálftavirkni í Bárðarbungu er svipuð og síðustu daga. Tíu skjálftar stærri en M3,0 hafa mælst frá hádegi í gær. Sá stærsti M5,2 var kl 05:00 í morgun.

Í dag er suðvestanátt ríkjandi, en vindur yfir gosstöðvunum er á köflum fremur hægur. Mengunar mun því einkum gæta kringum gosstöðvarnar og norðaustur af þeim, en gæti náð að svæðinu frá Langanesi og suður á Hérað. Á morgun er svo spáð stífri vestan- og norðvestanátt og þá má búast má við gasmengun austur og suðaustur af eldstöðinni, frá Fáskrúðsfirði að suðausturhlíðum Vatnajökuls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert