Stýrði fundi sem Cameron ávarpaði

Gréta Gunnarsdóttir á fimmtudag þegar hún sat sinn fyrsta fund …
Gréta Gunnarsdóttir á fimmtudag þegar hún sat sinn fyrsta fund sem einn af varaforsetunum. Ljósmynd/Hermann Ingólfsson

Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra Íslands í New York og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sat á fimmtudag sinn fyrsta fund sem einn af varaforsetum 69. allsherjarþings SÞ. Gréta gegnir stöðunni fyrir Íslands hönd í eitt ár.

Varaforsetar allsherjarþingsins eru tuttugu og einn talsins og koma frá öllum svæðahópum Sameinuðu þjóðanna. Sem varaforseti hleypur Gréta í skarð forseta þingsins þegar svo ber undir og tekur þátt í starfi nefndar allsherjarþingsins sem ákveður dagskrá þingsins. „Þetta er fyrst og fremst til að fundirnir gangi vel fyrir sig. Það kemur þó oft upp ýmiss konar ágreiningur á fundum hjá Sameinuðu þjóðunum og þá þarf maður að geta staðið sig sem stjórnandi,“ segir Gréta, og augljóst er að um ábyrgðarstöðu er að ræða.

Kjörið var í embættið í sumar, en nýr forseti og varaforsetar allsherjarþingsins tóku við því í síðustu viku þegar þingið hófst. Gréta sat sinn fyrsta fund sem varaforseti á fimmtudag, en þá ávarpaði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands þingið.

Áður hafa fastafulltrúarnir Thor Thors, Tómas Á. Tómasson, Þorsteinn Ingólfsson og Hjálmar W. Hannesson gegnt embætti varaforseta allsherjarþingsins fyrir Íslands hönd.

„Ísland getur haft áhrif og látið gott af sér leiða“

Gréta hefur verið sendiherra og fastafulltrúi síðan í maí 2011. Í tvö ár leiddi hún einnig samningaviðræður í allsherjarþinginu með kollega sínum frá Indónesíu, en þá voru leiddir til lykta samningar um mannréttindakerfi SÞ. „Það eru miklir möguleikar á því að taka að sér embætti ef maður er boðinn og búinn. Þetta er ein af þeim stofnunum þar sem Ísland getur haft áhrif og látið gott af sér leiða,“ segir Gréta.

Hún segir áherslumál Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum mjög vel skilgreind, en þar sé aðallega um að ræða orkumál, hafið, landgræðslu og mannréttindamál þar sem mikil áhersla er lögð á jafnrétti. „Ef maður skilgreinir verkefnin vel þá er hægt að hafa áhrif,“ segir hún.

UN Women ánægð með íslenska karlmenn

Gréta segir umræður á allsherjarþinginu hafa verið mjög áhugaverðar, en þar hefur megináherslan verið lögð á hryðjuverkasamtökin Ríki íslam og Úkraínu auk umræðna um ebólu. „Einnig hefur mikið verið rætt um nýju þróunarmarkmiðin sem Sameinuðu þjóðirnar ætla að reyna að ná samningum um í september á næsta ári,“ segir hún. 

Þá segir Gréta mikið hafa verið rætt um átakið HeForShe sem snýst um að virkja karl­menn í mót­mæl­um gegn kynjam­is­rétti. „Þetta er frábært framtak hjá UN Women sem gengur mjög vel,“ segir hún. Sagt hefur verið frá því á mbl.is að íslenskir karlmenn skari fram úr í átakinu, og segir Gréta UN Women vera ánægð með það. „Þau vita af því að það er mjög stór hluti íslenskra karlmanna sem er að taka þátt og eru mjög ánægð með það.

Frá allsherjarþingi SÞ í gær.
Frá allsherjarþingi SÞ í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert