Gæludýragrafreitur verði á Patreksfirði

Patreksfjörður
Patreksfjörður Sigurður Bogi Sævarsson

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur falið tæknideild sveitarfélagsins að finna hentugan stað fyrir gæludýragrafreit á Patreksfirði. Hugmyndin kom frá gröfumanni sem fær stundum það hlutverk að grafa dauð gæludýr.

Í fundargerð skipulags- og umhverfisráðs segir að enginn gæludýragrafreitur sé til staðar á Patreksfirði. Bendir gröfumaðurinn á mögulegt svæði fyrir slíkan grafreit í Drengjaholti, neðan við gamla knattspyrnuvöllinn. „Skipulags- og umhverfisráð þakkar ábendinguna og felur tæknideild Vesturbyggðar að finna hentugan stað,“ segir í afgreiðslu ráðsins.

Gott að geta aðstoðað fólk

Fáeinir gæludýragrafreitir eru starfræktir á landinu, meðal annars á fræðslusetri Landverndar í Alviðru í Ölfusi og í Flekkudal í Kjós. Þá hefur Dýraspítalinn í Víðidal boðið gæludýraeigendum upp á almenna brennslu og sérbrennslu dýranna.

Í umfjöllun Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum um gæludýragrafreiti og útfarasiði tengdum gæludýrum kom fram að sífellt fleiri kjósi að grafa dýr sín. „Þetta eru alltaf sérstök verkefni enda er fólk oftast tilfinningalega mjög tengt gæludýrunum sínum og þau eru búin að vera heimilisvinir í mörg ár. Mér finnst gott að geta aðstoðað fólk í þessum efnum og eftirspurnin er alltaf að aukast,“ var þá haft eftir Þorsteini Ágústssyni, sem smíðar kistur undir gæludýr í hjáverkum.

Frétt Morgunblaðsins: Þegar gæludýr deyr

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert