Vanmat áhrif vindsins og fór of hratt

Kirkjubæjarklaustur
Kirkjubæjarklaustur Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Það er mat rannsóknarnefndar samgönguslysa að að fisflugmaðurinn hafi vanmetið hentugleika lendingarsvæðisins, áhrif vindsins og komið of hratt inn til lendingar þegar fisflugvél var lent utan flugvallar við Kirkjubæjarklaustur fyrir tveimur árum.

Þann 27. maí 2012  fór fisflugmaður ásamt einum farþega frá Úlfarsfelli í yfirlandsflug um Suðurland og áætlaði að lenda á túni við bæinn Ásgarð við Kirkjubæjarklaustur þar sem vélhjólaíþróttakeppni fór fram.

Í undirbúningi fyrir flugið gerði fisflugmaðurinn fyrirflugskoðun á fisinu og aflaði sér veðurupplýsinga á vefsvæði Veðurstofu Íslands. Veðurspáin var góð að hans mati og gerði hann ráð fyrir hægri vestanátt. Fisflugmaðurinn gerði ekki massa- og jafnvægisútreikninga fyrir flugið en studdist við fyrri útreikninga sína. Eldsneytismagn við brottför var 50 lítrar.

Ætlaði að lenda á túni

Fyrstu tvær klukkustundirnar var flogið í 500-2500 feta hæð yfir sjávarmáli, en þegar komið var fram hjá Skógum í um það bil 5000 feta hæð. Um 20 mínútum fyrir lendingu var flugið lækkað úr 5000 fetum og komið að keppnissvæðinu í um 1000 feta hæð. Fisflugmaðurinn hélt þá áfram lækkun í um 400-500 feta hæð, fór hring um svæðið í leit að heppilegu lendingarsvæði og ákvað að lenda til suð-vesturs á túni við bæinn Ásgarð en þannig taldi hann sig vera lenda í mótstæðum hliðarvindi.

Fisflugmaðurinn sá vindstefnu á fánum sem voru á mótssvæðinu. Fisflugmaðurinn setti vængbörð niður fyrir lendingu. Í lendingunni veitti fisflugmaðurinn hraðamælinum ekki athygli en fannst hraðinn of mikill. Hann ákvað því að hætta við lendinguna og taka aftur á loft um það leyti sem fisið snerti jörð. Þar sem fisið snerti túnið hallaði túnið upp á við. Fisið rann eftir túninu, upp á efri hluta þess, sveigði þá til vinstri og rak vinstra aðalhjól í vegbrún sem lá samhliða lendingarsvæðinu með þeim afleiðingum að það brotnaði af. Fisið kastaðist þá yfir veginn, hafnaði í girðingu og stöðvaðist. Fisflugmaðurinn og farþeginn slösuðust ekki og komust sjálfir út úr flakinu.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert