Deilt um vanhæfi í eitt og hálft ár

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Sakamál gegn karlmanni á sextugsaldri sem er ákærður fyrir nauðgun hefur flakkað á milli héraðsdóms og Hæstaréttar undanfarin tvö ár. Í september árið 2012 var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi en Hæstiréttur ómerkti dóminn hálfu ári síðar og vísaði málinu aftur í hérað. Síðan þá hefur verið deilt um hæfi yfirmatsmanna, dómsformanns og meðdómenda.

Í morgun fór fram munnlegur málflutningur í máli mannsins og þar var tekist á um hæfi tveggja meðdómsmanna, en maðurinn fer fram á að þeir víki. Nú þegar hafa þrír yfirmatsmenn og dómsformaður verið látnir víkja sæti í málinu. Búast má við að úrskurður um það muni liggja fyrir í lok vikunnar. Svo má reikna með því að næsta skref verði að dómkveðja nýja yfirmatsmenn í málinu.

Ríkissaksóknari ákærði manninn fyrir nauðgun í júlí 2012, en manninum var gefið að sök að hafa káfað á kynfærum konu sem hann nuddaði og sett fingur inn í leggöng hennar. Konan hafði leitað til hans vegna vandamála í mjóbaki. Maðurinn neitaði sök í málinu og hélt því fram að þetta hefði verið slys en ekki ásetningur. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn hins vegar í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun í september 2012. Fram kemur í dómnum, að atburðurinn hefði haft mikil áhrif á líf konunnar og að hún hefði þjáðst af bráðaáfallastreituröskun.

Sérfræðingar fengnir til að leggja mat á nuddaðferðina

Maðurinn áfrýjaði til Hæstaréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms í apríl 2013 og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar ný. Hæstiréttur sagði að skýrsla nuddarans hjá lögreglu hefði gefið fullt tilefni til að verða við beiðni hans um að aflað yrði mats sérfróðra matsmanna varðandi aðferðirnar sem hann notaði við nuddið.

Fyrir héraðsdómi viðurkenndi maðurinn að hafa rekið einn fingur í sköp konunnar. Hann sagði að höndin hefði runnið til í kremi þegar hann var að losa um vöðvafestur í nára konunnar. Hann sagðist beita sérstökum aðferðum í ákveðnum tilvikum sem hann hafði lært erlendis.

Maðurinn sagði að vörn sín hefði orðið áfátt í málinu því nauðsynlegt hefði verið að fá matsgerð sérfróðra manna, sem hefðu getað farið yfir aðferðirnar, kynnt sér þær og gefið álit sitt á þeim.

Í febrúar 2014 voru þrír yfirmatsmenn dómkvaddir til að endurmeta atriði

sem komu fram í matsgerð sem var sem var lögð fram í janúar. Maðurinn krafðist hins vegar að yfirmatsmönnunum yrði vikið frá því þeir væru óhæfir. Hann sagði að þeir hefðu sýnt af sér óvild og andúð í sinn garð. Þeir hefðu m.a. gagnrýnt það að hann hefði ekki mætt á yfirmatsfund á tilteknum stað og tíma - þrátt fyrir að lögmaður hans hefði gert það. Nuddarinn býr erlendis og hann sagðist eiga erfitt með að komast frá vinnu og það væri sömuleiðis dýrt fyrir hann að fljúga til landsins.

Dró hlutdrægni yfirmatsmannanna í efa

Í júní sl. hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu nuddarans um að þremenningarnir myndu víkja sæti.

Maðurinn áfrýjaði til Hæstaréttar, sem í ágúst sl. felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ummæli sem yfirmatsmennirnir létu falla um nuddarann hefðu verið til þess að hann hefði réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Var lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja nýja yfirmatsmenn.

Nuddarinn krafðist svo þess að dómsformaðurinn, sem hafnaði kröfu um að víkja yfirmatsmönnunum frá, myndi víkja sæti því hann hefði í úrskurði sínum tekið undir sjónarmið yfirmatsmannanna og sagt hneykslun þeirra á framferði verjanda mannsins réttmæta. Nuddarinn krafðist ennfremur að meðdómsmenn, sem tóku þátt í málsmeðferðinni með dómsformanni, ættu einnig að víkja sæti.

Í úrskurði héraðsdóms frá 16. september var dómsformaðurinn látinn víkja sæti en ekki meðdómsmenn. Hæstiréttur staðfesti að dómsformaðurinn ætti að víkja sæti en að öðru leyti var úrskurðinn felldur úr gildi.

Fjórum af sex hefur verið gert að víkja vegna vanhæfis

Alls hefur fjórum einstaklingum af sex því verið gert að víkja sæti í málinu. Málið er því enn til meðferðar í dómskerfinu, en nýr dómari hefur tekið við málinu í héraði.

Nú er beðið eftir úrskurði héraðsdóms og miðað við forsögu málsins má búast við að málinu verði enn og aftur skotið til Hæstaréttar. Það er því óljóst hvenær endanleg niðurstaða í málinu mun liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert