Léttist til að geta hlaupið hraðar

Birna Varðardóttir er tvítugur nemi í næringarfræði í Háskólanum í …
Birna Varðardóttir er tvítugur nemi í næringarfræði í Háskólanum í Reykjavík. Úr einkasafni

Átröskun er mikið tabú í samfélaginu og það fylgir því ákveðin skömm að glíma við sjúkdóminn. Þetta segir Birna Varðardóttir, tvítugur nemi í næringarfræði í Háskóla Íslands, sem háði baráttu við átröskun á unglingsárunum. Hún hefur nú skrifað og gefið út bókina Molinn minn þar sem hún segir frá reynslu sinni.

Í gegnum tíðina hefur Birna náð góðum árangri í íþróttum. Á unglingsárunum lagði hún stund á frjálsar íþróttir og þá einna helst langhlaup. Hún lagði mikla áherslu á að standa sig vel og áttaði sig ekki á því að íþróttin var farin að taka toll af henni, andlega og líkamlega.

Aðalatriðið að geta hlaupið hraðar

„Ég hélt að með því að léttast meira gæti ég hlaupið hraðar og á þessum tíma var fátt sem skipti mig meira máli. Þetta var ákveðin öguð og grönn hlaupaímynd sem ég var að reyna að uppfylla,“ segir Birna. 

Hún var aðeins þrettáns þegar átröskunin fór að gera vart við sig og þegar hún var sextán ára var hún orðin mjög veik. Til að byrja með áttaði Birna sig ekki á alvarleika málsins. 

Henni fór aftur á æfingum en trúði því að það væri vegna þess að hún væri ekki að gera nóg. Það var ekki fyrr en móðir hennar náði til hennar og sýndi henni að eitthvað mikið var að sem hún áttaði sig á stöðunni. 

„Þetta snerist allt um hlaupin. Maður áttar sig ekki á þessu sjálfu, það þarf alltaf að vera eitthvað rautt ljós,“ rifjar Birna upp í samtali blaðamann við mbl.is. 

Nýtti ekki hefðbundna meðferð á sjúkrahúsi

Í bókinni ræðir Birna um orsakir þess að sjúkdómurinn tók sig upp hjá henni, hvernig hún upplifði sjúkdóminn og hvaða leið hún fór í bataferlinu. Hún nýtti sér ekki hefðbundna meðferð á sjúkrahúsi heldur spilaði Boot Camp stóran hluta í bataferlinu.

Þar var henni tekið opnum örmum og naut hún sérstaklega stuðnings eins þjálfara sem lagði áherslu á að hugurinn væri á réttum stað. „Hjálpin þaðan var ómetanleg,“ segir Birna.

Birna vill opna umræðuna um átröskun og segir að bókin geti til dæmis nýst þeim sem glíma eða hafa glímt við átröskun, fjölskyldu þeirra og öðrum nákomnum. Hún telur bókina veita góða innsýn inn í hugarheim þess sem berst við átröskun.  „Þetta er bók sem ég hefði vilja lesa, mér fannst ég vera sú eina sem glímdi við þetta,“ segir Birna.

Átröskunin leynist víða í samfélaginu

„Meginmarkmiðið með bókinni er að stuðla að því að hægt verði að opna umræðuna sem er mjög lokuð,“ segir Birna. Eftir að hún fór að ræða opinskátt um átröskunina hafa margir gefið sig á tal við hana. Sumir þeirra hafa glímt við sjúkdóminn en aðrir eiga vini eða ættingja í þessari stöðu og segir Birna ljóst að átröskinin leynist víða í samfélaginu. 

Bókina skrifaði Birna að mestu leyti síðastliðinn vetur í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hún dvaldi um tíma. Hún gefur bókina út sjálf eftir að hafa komið að lokuðum dyrum hjá bókaforlögum hér á land. Birna gafst þó ekki upp, ákvað að láta slag standa og koma bókinni sjálf út.

Birna leggur stund á næringarfræði í Háskóla Íslands en í framtíðinni vill hún vinna með þeim sem berjast við átröskun. „Það er fátt sem gefur mér meira en að geta leiðbeint öðrum“, segir hún.

Bókin kemur í verslanir um helgina. Útgáfuhóf vegna útgáfu bókarinnar verður haldið í Dalsskóla í Reykjavík á laugardaginn og hefst það kl. 14. Hér má finna nánari upplýsingar um bókina. 

Í bókinni Molinn minn ræðir Birna um orsakir þess að …
Í bókinni Molinn minn ræðir Birna um orsakir þess að sjúkdómurinn tók sig upp hjá henni, hvernig hún upplifði sjúkdóminn og hvaða leið hún fór í bataferlinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert