Ögmundur styður ekki árásir á Ríki íslam

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra, segir ömurlegt að hlusta á Íslendinga stæra sig af því að vera herlaus þjóð sem þó sé alltaf tilbúin að fórna annarra þjóða ungmennum þegar verja þurfi auðlindahagsmuni vestræns kapítalisma. Hann segir árásir á samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki ekki í sínu nafni.

Á vefsvæði sitt skrifar Ögmundur: „Mig langar til að segja að hlutdeild Íslands í árásarstríði í Mið-Austurlöndum verður ekki í mínu nafni.“

Tilefnið er yfirlýsing Gunnars Braga Sveinssonan, utanríkisráðherra, þess efnis að íslensk stjórnvöld styðji að gripið sé til alþjóðlegra aðgerða gegn samtökunum. „Ísland styðji að hart verði brugðist við uppgangi samtakanna auk þess sem íslensk stjórnvöld muni leggja fram 50.000 bandaríkjadali til mannúðaraðstoðar á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna á svæðinu,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Við gefum mat, aðrir sjá um hernað

Ögmundur segir þetta einfaldlega þýða að aðrir sjái um sprengjurnar og ungmennin til að deyja þegar þar að kemur. „Við þekkjum þetta orðið: „Við erum bara að gefa mat, aðrir sjá um hernaðinn!““

Þá segist hann hafa talið að einhvern tímann kæmi að því að „blekkingaleiknum linnti og heimurinn lærði af mistökum liðinnar tíðar. En munum að mistökin eru ekki herveldanna. Þau eru ekki að feilreikna sig. Þau eru nú sem fyrr að verja hagsmuni. Mistökin eru okkar, almennings, að láta blekkjast af lygum þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert