Bændur stæðu betur innan ESB

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar mbl.is/Ómar Óskarsson

Ýmislegt bendir til þess að landbúnaðurinn þurfi í vaxtandi mæli að sæta evrópskum reglum og þola fulla samkeppni utan frá sökum þess að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. En bændur eiga að sama skapi ekki sama aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins þar sem landið stendur fyrir utan ESB.

Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og vísaði til frétta sem bárust í dag um úrskurð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um innflutning á ferskum kjötvörum. Helgi tók skyr sem dæmi en vaxandi eftirspurn er eftir skyri í Evrópusambandinu. „Við þurfum að láta framleiða það í útlöndum af því við getum ekki flutt það inn á markaðina sjálf, vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að ljúka ekki þeim leiðangri sem hafinn var.“

Sá leiðangur sem Helgi nefndi er aðildarferlið að Evrópusambandinu. „Það hlýtur að undirstrika hversu mikið ábyrgðarleysi það er, af hálfu núverandi ríkisstjórnar, að hafa ákveðið að ljúka ekki aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ sagði Helgi „Að setja ekki fram samningsmarkmið okkar í landbúnaði og láta reyna á fyrirheit forustumanna Evrópusambandsins í Brussel um að tiltölulega auðveldlega mætti komast að samkomulagi um landbúnaðarmá.“

Hann sagði afleiðingar þess að hafa horfið frá samningaborðinu, án þess að láta á það reyna hvort tryggja mætti hagsmuni íslenskra bænda í frjálsum samningum við Evrópusambandið, þær að Íslendingar sitji og þurfi að taka við úrskurðum um það að bændur skuli sæta evrópskum reglum, lúta samkeppni utan frá en fái ekki að flytja sjálfir frjálst inn á markaðina í Evrópu sem þó gætu vel tekið við vörum framleiddum hér á landi.

Óttinn við sjúkdóma

Þorsteinn Sæmdunsson, þingmaður Framsóknarflokksins, svaraði Helga síðar í umræðunni. Sagði hann úrskurð ESA kristalla mjög vel þann grundvallarágreining sem Íslendingar eigi við ESA um innflutning á hráu kjöti „sem Íslendingar og ríkisstjórn Íslands telja heilbrigðismál en ekki verslun yfir landamæri.“

Hann sagði nauðsynlegt að Íslendingar séu andvígir innflutningi á hráu eða fersku kjöti vegna ótta við sjúkdóma og nauðsyn þess að varðveita hreinleika þess búfjárstofns sem er á Íslandi. „Það er líka ástæða að vernda þann hreinleika sem birtist í því að Íslendingar nota nánast allra landa minnst af sýklalyfjum í landbúnaði og í matvælaframleiðslu. Hvaða hagsmunamat er þetta? Jú, það er það hagsmunamat að hagsmunir þjóðarinnar séu best varðveittir með því að varna því að hér gjósi upp sjúkdómar.“

Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert