Níumenningum skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu

Lögreglumenn fylgja mótmælanda út af vinnusvæðinu við Gálgahraun.
Lögreglumenn fylgja mótmælanda út af vinnusvæðinu við Gálgahraun. Júlíus Sigurjónsson

Níumenningarnir sem dæmdir voru í Héraðsdómi Reykjaness í gær vegna mótmæla sinna í Gálgahrauni, neituðu að hlýða fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set og var refsing þeirra ákveðin 100.000 kr. sekt til ríkissjóðs ella fangelsi í átta daga.

Dómarnir voru birtir á vef dómstólsins í dag.

Málsvörn ákærðu laut í stórum dráttum að því að aðgerðir lögreglu hefðu stangast á við stjórnarskrárvarin réttindi þeirra og Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fram kemur að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en þurfi þó að ábyrgjast þær fyrir dómi. Sé mönnum einnig heimilt að safnast saman vopnlausir. Bent er á í dómsniðurstöðu að tjáningarfrelsið sé takmarkað þannig að það gangi ekki lengra en önnur stjórnarskrárvarin réttindi manna, t.d. varðandi eignarétt og almannaheill. 

Í stjórnarskránni kemur einnig glögglega fram að enginn geti komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda. Eins kveða lögreglulög á um heimildir lögreglu til að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, til að gæta öryggis einstaklinga og almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau. Þannig er lögreglu heimilt að vísa fólki brott eða fjarlægja það og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Í lögreglulögum er ennfremur að finna almennt ákvæði sem kveður á um skyldu borgaranna að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Það er því niðurstaða dómsins að þótt ákærðu teldu sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun bar vitni við vegaframkvæmdir, veitti það þeim ekki rétt til að hindra framkvæmdir hennar á þann hátt sem þau gerðu.

Tjáningarfrelsinu má setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, líkt og fram kemur í stjórnarskrá. Taldi dómurinn ljóst í máli þessu að aðgerðir lögreglu hefðu verið nauðsynlegar og ekki farið í bága við áðurnefnda heimild stjórnarskrár til heftingar tjáningarfrelsis þar sem ákærðu hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að fara ekki inn á tilgreind vinnusvæði og láta af aðgerðum sínum að því marki sem þau gengu á rétt annarra til að halda áfram lögmætum framkvæmdum.

Gerðust níumenningarnir brotlegir við lögreglulög og því heimilt að leggja á fésekt nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. 

Hér má sjá umræddar dómsniðurstöður í heild sinni á vef Héraðsdóms Reykjaness.

Lögregla ræðir við mótmælendur við Gálgahraun.
Lögregla ræðir við mótmælendur við Gálgahraun. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert