Skoðar lagaramma um landslénið .is

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra á Alþingi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að lagaumgjörð hér á landi varðandi notkun á landsléninu .is sé óskýr og því sé hafin vinna við að skýra þann ramma. Hanna Birna  kveðst reiðubúin að beita sér fyrir lagasetningu en tekur hins vegar fram að ekki megi takmarka tjáningarfrelsi manna.

Þetta kom fram í svari Hönnu Birnu við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingsmanns Vinstri grænna, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

„Það er ömurlegt að landslén Íslands skuli hafa verið heimili þessara ógnarsamtaka í netheimum. Spurningin er hins vegar hvað sé til ráða,“ sagði Álfheiður. Hún benti á að landslénið hefði verið einkavætt á árinu 2000 og um það gildi nú engar reglur og engin lög auk þess sem ekkert sérstakt eftirlit sé haft með starfseminni. 

Álfheiður spurði hvort innanríkisráðherra væri tilbúinn að setja lagaramma  um íslenska landslénið, til að mynda í takt við það sem fyrrverandi innanríkisráðherra lagði til, um að rétthafi landslénsins .is skuli vera lögráða einstaklingur eða lögaðili sem hafi skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum og hafi tengsl við Ísland.

Hanna Birna sagði að málið væri viðkvæmt og flókið og hluti af þeim veruleika sem við búum við. Hún kveðst aftur á móti reiðubúin að skoða lagasetningu varðandi lénið og sú vinna væri, sem fyrr segir, komin í gagn. Hanna Birna sagði að menn yrðu að gæta sín að takmarka ekki tjáningarfrelsi manna. Hún sagði að það yrði vonandi aldrei hlutverk ráðherra að loka vefsíðum eða hafa beinan atbeina að því á Íslandi.

Fordæmalaus aðgerð

Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, vakti athygli á vefsíðunni um helgina og var í kjölfarið hafin athugun á málinu í innanríkisráðuneytinu.

ISNIC, Internet á Íslandi, ákvað á sunnudag að loka lénum sem notuð voru fyrir vefsíðu Ríkis íslams. Um fordæmalausa aðgerð er að ræða, þar sem ISNIC hefur aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.

Í samtali við mbl.is í gær, sagði Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC, að þetta væri sorgardagur hjá fyrirtækinu. „Við vor­um orðin þekkt fyr­ir að hafa aldrei lokað léni. Nú er það ekki leng­ur raun­in. Þannig að þess­ir aðilar hafa eyðilagt mikið fyr­ir okk­ur.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is á sunnudaginn, að það væri ótækt að hryðjuverkasamtökin væru að nota íslenskt lén. Það væri „ákaflega óskemmtilegt að þau skuli kalla sig IS og nota einkennisstafi Íslands svona“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert