Alvörusnjókoma í vændum

Fyrsta alvöru snjókoma vetrarins í vændum.
Fyrsta alvöru snjókoma vetrarins í vændum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Veðurstofan vill vekja athygli á að fyrsta alvörusnjókoma haustsins er í vændum á mánudaginn. Þetta segir orðrétt í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Fylgist með á veðurvef mbl.is.

Spár gera ráð fyrir að vaxandi lægð verði yfir landinu á sunnudag, með skaplegu veðri og vætu nokkuð víða. Á mánudag þokast lægðin austur fyrir land og fylgir köld norðanátt í kjölfarið.

Á mánudagsmorgun má búast við norðanstormi (18-23 m/s) norðvestantil á landinu með snjókomu. Má búast við að dálítil snjókoma slæðist suður á Faxaflóasvæðið og þar verði hvassviðri (15-20 m/s). Mun hægari vindur verður á austurhelmingi landsins fram eftir degi og úrkomulítið.

Þegar líður á mánudaginn breiðir norðanvindstrengurinn og úrkomusvæðið úr sér til austurs og á mánudagskvöldið er útlit fyrir norðanhvassviðri eða storm (15-23 m/s) víða um land. Þá er útlit fyrir samfellda snjókomu um allt norðanvert landið, en stöku smáél sunnanlands. Hiti verður kominn undir frostmark um mestallt land.  

Á þriðjudag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðvestanátt með áframhaldandi snjókomu norðanlands, en úrkomulaust syðra. Vind lægir á V-verðu landinu seinnipart dagsins þegar umrædd lægð grynnist og fjarlægist landið. Frost 0 til 4 stig.

Þeim sem þurfa að aka milli landshluta er bent á að ágætis veður er til þess á morgun, sunnudag. Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið á mánudag og þriðjudag, einkum á norðurhelmingi landsins.

Veðurstofan vann spána með aðstoð tölvuspáa með greiningartíma kl. 12 á laugardag. Benda má á að tiltölulega lítil færsla á lægðinni getur breytt því hvenær óveður hefst í hverjum landshluta. Veðurspár verða að jafnaði áreiðanlegri eftir því sem þær eru styttra fram í tímann.

Snjórinn er að koma.
Snjórinn er að koma. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert