Aðgerðum verður forgangsraðað

Verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hófust aðfaranótt mánudags.
Verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hófust aðfaranótt mánudags. mbl.is/Árni Sæberg

Síðustu tvo daga, mánudag og þriðjudag, þurfti að fella niður tæplega 60 aðgerðir á Landspítalanum vegna verkfallsaðgerða lækna á barna,- kvenna- og rannsóknarsviði spítalans. Í dag og á morgun eru læknar á lyflækningasviði í verkfalli og hefur þegar þurft að fella niður nokkrar aðgerðir. 

Dæmi er um að sjúklingur sem missir af aðgerð í dag vegna verkfallsaðgerða lækna á lyflækningasviði Landspítalans hafi beðið í tvö ár eftir aðgerðinni. Allar skipulagðar valaðgerðir falla niður en meðal þeirra eru hjartaþræðingar og magaspeglanir.

Biðlistar vegna aðgerða munu lengjast

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum munu biðlistar vegna aðgerða á spítalanum lengjast vegna verkfallsaðgerðanna. Aðgerðir eru skipulagðar langt fram í tímann og mun starfsfólkið  þurfa að forgangsraða þegar nýjir tímar verða fundir fyrir þá sem misstu af aðgerð.

Því er hugsanlegt að röskunin muni ekki aðeins hafa áhrif á þá sem áttu tíma á meðan verkfallið stóð yfir, heldur einnig aðra sem bíða einnig eftir tíma þar sem aðgerðunum verður forgangsraðað.

Þurfa að gera ráðstafanir vegna aðgerðanna

Ljóst er að margir hafa orðið fyrir óþægindum vegna verkfallsaðgerðanna. Sumir koma til að mynda til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að fara í aðgerð og þurfa að gera viðeigandi ráðstafanir.

Þessir sjúklingar þurfa hugsanlega að dvelja nokkra daga á suðvesturhorninu áður og eftir aðgerð og því þurfa þeir meðal annars að útvega gistingu. Þá þarf eflaust að útvega afleysingu frá vinnu fyrir marga sjúklinga sem gangast undir aðgerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert