Ölvaður ökumaður reyndi að flýja lögreglu

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 75 daga fangelsi fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis sviptur ökurétti. Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi m.a. að flýja undan lögreglumönnum á hlaupum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn 13. maí sl. Hann var ákærður fyrir fyrir umferðar-, vopna- og lögreglulagabrot í Hafnarfirði með því að hafa aðfaranótt 29. mars sl. ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,03 ‰). Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur jók hann hraðann og ók inn á bifreiðastæði þar sem hann stöðvaði aksturinn og reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum. Hann var handtekinn af lögreglu á bifreiðaplaninu, og hafði í vörslum sínum fjaðrahníf sem fannst við öryggisleit og lagt var hald á.

Neitaði að hafa ekið bifreiðinni

Þegar maðurinn mætti fyrir dómara neitaði hann sök, þ.e. að hafa ekið bifreiðinni, en kvaðst vera annar af tveimur farþegum í bílnum. Hann vildi ekki upplýsa hverjir hefðu verið með honum í bílnum.  Hann hélt því fram, að lögreglan hefði ekki getað hafa séð hver það var sem ók bifreiðinni. Lögreglubifreiðin hefði verið svo langt á eftir þeim, auk þess sem hann hefði hlaupið fyrir horn og því hlyti lögreglan að hafa misst sjónar í einhvern tíma af þeim.

Hann sagði hins vegar að það væri rétt að hann hefði verið með hníf í fórum sínum. 

Tveir lögreglumenn sem báru vitni sögðu að þeir hefðu aldrei misst sjónar af bifreiðinni frá því þeir mættu henni og þar til lagt var á bílastæðinu. Þá hefðu þeir aldrei misst sjónar af ökumanninum. 

Gerð athugasemd við rannsókn málsins

Ákærði krafðist sýknu og byggði þá kröfu m.a. á því að engin rannsókn hefði farið fram af hálfu lögreglu og engin framburðarskýrsla hefði verið tekin af honum og ekki lægi fyrir í málinu hverjir hefðu verið með honum í bifreiðinni. Dómstóllinn tók undir þær málsástæður mannsins að lögreglu hefði borið að taka framburðarskýrslu af honum þar sem hans frásögn af atvikum kæmi fram, og hvort hann játaði eða neitaði að hafa ekið. Þá var í engu getið í frumskýrslu lögreglu um það hver eða hverjir hefðu verið með manninum í bifreiðinni. Var því gerð athugasemd við þennan þátt rannsóknar málsins. Þrátt fyrir þetta taldi dómurinn að efnisdómur yrði lagður á málið.

Dómstóllinn telur sannað að lögreglumennirnir hafi verið í það miklu návígi við bifreiðina, frá því að þeir veittu henni fyrst athygli, og ökumanninn, eftir að hann hljóp út úr henni, að vafalaust sé að það hafi verið ákærði sem ók bifreiðinni. Var því maðurinn sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá mótmælti maðurinn því ekki að hafa hlaupið undan lögreglunni þegar hann var handtekinn. Var hann einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi. Ekki var ágreiningur um matsgerð um alkóhólmagn í blóði mannsins og var hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefið að sök í ákæru.

Hefur margsinnis komist í kast við lögin

Þá kemur fram, að maðurinn hefði gengist undir viðurlagaákvörðun þann 14. janúar 2009 fyrir ölvunarakstur og var gert að greiða 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í tuttugu mánuði. Maðurinn gekkst undir sátt þann 5. ágúst 2009 fyrir að aka undir áhrifum áfengis og að aka sviptur ökurétti. Var honum þá gert að greiða 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti í fjögur ár frá 14. janúar 2010. Ákærði var dæmdur í fjörutíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og auk þess sviptur ökurétti ævilangt 26. nóvember 2009. Hafa ofangreindar refsingar ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. 

Héraðsdómur áréttaði einnig ævilanga ökuréttarsvipting mannsins og skal hann greiða 209 þúsund krónu í sakarkostnað. Þá var fjaðrahnífur sem hann var með gerður upptækur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert