Án heimilis á morgun

Með búslóðina í kössum. Ástríður Erlendsdóttir er að leita að …
Með búslóðina í kössum. Ástríður Erlendsdóttir er að leita að framtíðarhúsnæði til leigu fyrir fjölskyldu sína. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Einstæð fjögurra barna móðir í Reykjanesbæ segist munu fara á götuna á morgun þegar henni verður gert að fara með fjölskylduna úr leiguíbúð. Sökum þess að konan er á vanskilaskrá kemur hún ekki til greina sem leigutaki hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS).

Fjölskyldan hefur búið í leiguíbúð í eigu Búmanna, félags sem leigir út fasteignir fyrir 55 ára og eldri, síðan 1. nóvember í fyrrahaust.

Örorkubætur einu bæturnar

Konan heitir Ástríður Erlendsdóttir og er 55 ára. Hún er öryrki og hefur engar aðrar tekjur en örorkubætur. Börnin hennar, tveir strákar og tvær stúlkur, eru um tvítugt og eru tvö þeirra að fara að flytja í bráðabirgðahúsnæði.

Ástríður segist hafa átt erfitt með að standa undir leigunni hjá Búmönnum. Hún skuldar félaginu þriggja mánaða leigu. „Leigan er svo há. Hún var 160 þúsund krónur á mánuði í upphafi en hefur síðan hækkað vegna vísitölutryggingar. Það er erfitt að borga svo háa leigu. Ég er aðeins með örorkubætur. Þær eru 179 þúsund krónur. Þar kom að ég gat ekki lengur borgað leiguna. Búmenn innleystu þá tryggingu sem var gerð við upphaf leigutíma og tóku hana upp í ógreidda leigu. Ég skulda aðeins hitaveitu og rafmagn en reyni að standa í skilum með það. Ég spurðist fyrir um það hjá Búmönnum hvort við mættum vera hér í fáeina daga eða vikur lengur. Svarið var að það væri ekki hægt.“

Ekki staðið við loforð

Ástríður bjó áður í íbúð í Reykjanesbæ sem hún leigði á almennum markaði. „Við stóðum í þeirri trú að við myndum fá að kaupa þá íbúð. Það var ekki staðið við það. Við fengum tilkynningu um að rýma íbúðina. Ég var hins vegar um kyrrt í tvo mánuði, sagði að ég myndi ekki fara á götuna með fjóra unglinga. Í kjölfarið fékk ég inni hjá Búmönnum.“

„Maður gerir oft mistök“

Fjármál Ástríðar fóru úr skorðum á síðasta áratug og hefur hún verið á vanskilaskrá í átta ár. Hún er hreinskilin og segist hafa hrasað, meðal annars hallað sér að flöskunni.

„Maður gerir oft mistök. Það er bara þannig. Ég er ekki í góðum málum. Mamma hefur aðstoðað okkur stundum. Hún er orðin fullorðin kona. Manni finnst það mjög leiðinlegt. Hún á nóg með sig.“

Ástríður segir fjölskylduna leita að framtíðarhúsnæði til leigu.

„Við höfum leitað út um allt en fáum hvergi leigt í Reykjanesbæ þrátt fyrir allar þessar tómu íbúðir. Það eru margir umsækjendur um hverja íbúð. Þeir sem sækja um leiguíbúðir hjá Íbúðalánasjóði mega ekki vera á vanskilaskrá. Maður er orðinn mjög þreyttur á þessu. En ég fer ekki á götuna með börnin mín,“ segir Ástríður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert