10 manns sagt upp hjá Arctic Odda á Flateyri

Flateyri að vetri.
Flateyri að vetri. mbl.is/Helgi Bjarnason

Arctic Oddi á Flateyri hefur sagt upp að minnsta kosti 10 manns á skömmum tíma. Á miðvikudaginn var fjórum sagt upp og að minnsta kosti fimm í gær. Framkvæmdastjóranum hafði þegar verið sagt upp.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is stendur einnig til að selja skip Vestfirðings, sem er útgerðarfélag í eigu sömu aðila og Arctic Oddi. Við það munu fimm manns til viðbótar missa vinnuna og fyrtækið mun þurfa að skila byggðakvóta.

Samkvæmt heimildum mbl.is sögðu stjórnendur fyrirtækisins að fleirum yrði ekki sagt upp þegar fyrri uppsagnirnar áttu sér stað hjá Arctic Odda. Það stóðst ekki, því tveimur dögum síðar misstu að minnsta kosti fimm vinnuna.

Engar skýringar hafa fengist á uppsögnunum. Ekki náðist í Sigurð Pétursson, stóran eiganda í Arctic Odda og Sigurður Grendal Magnússon, fjármálastjóri fyrirtækisins vildi ekki tjá sig um málið og vísaði á Sigurð Pétursson og tilkynningu sem félagið sendi frá sér um miðjan október.

Bryndís Sigurðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Arctic Odda, sagði í samtali við mbl.is að „ákvörðun hefði verið tekin um að loka vinnslunni og að skrifstofan yrði líka flutt suður.“

Hún segir að slátrun á eldissilungi sé yfirstandandi, en enginn silungur sé væntanlegur aftur fyrr en í nóvember á næsta ári. „Ég get ekki séð að tækin þoli það að vera ekki notuð í heilt ár. Ég var ekki sátt við þessar breytingar og sá ekki neitt gáfulegt í þeim.“

Vantar eitthvað púsl

Bryndís segir að á þessu ári hafi tekist að minnka tap vinnslu og útgerðar Arctic Odda og Vestfirðings úr 160 milljónum á síðasta ári í innan við 40 milljónir á þessu ári. „Ég skil ekki þessa ákvörðun. Við hefðum náð tapinu á næsta ári niður fyrir rekstrarkostnaðinn á húsunum. Þetta var keypt til að vinna silung, en það hefur gengið hægar að ala silunginn, t.d. gengið mjög illa að fá eldisleyfi,“ segir Bryndís.

„Það áttu að vera komin 2.000 tonn í hús á þessu ári af silungi, en það verður ekki fyrr en eftir tvö ár. Það var alltaf vitað að það yrði ómögulegt að reka þetta með bolfisvinnslu. Hún átti bara að vera uppfyllingarefni þangað til silungurinn væri kominn í hús, þá verður þetta flottur rekstur. Þetta var bara millibilsástand, en allt í einu brast þolinmæðin,“ segir hún.

Ertu með einhverjar skýringar á því?

„Nei. Það vantar eitthvað púsl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert