Tali ekki bara um hlýnunina

Páll Bergþórsson veðurfræðingur
Páll Bergþórsson veðurfræðingur Rax / Ragnar Axelsson

Mögulegt er að veðurfar á norðurslóðum muni kólna á næstu árum þrátt fyrir að jörðin sé almennt að hlýna vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum. Draga þarf úr brennslu jarðefna en ef aðeins er talað um áframhaldandi hlýnun gæti fólk talið sig blekkt. Þetta segir Páll Bergþórsson, veðurfræðingur.

Í færslum sem Páll skrifaði á facebooksíðu sína í dag og í gær segir hann að ákvörðun loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um að ráðleggja mönnum að draga verulega úr nýtingu jarðefnaeldsneytis á þessari öld sé rétt en forsendur hennar séu villandi. Óháð hlýnun jarðar af völdum þeirra gróðurhúsalofttegunda sem menn hafa dælt út í lofthjúpinn hafi kulda- og hlýindaskeið skipst á í aldaraðir á norðurhveli vegna hafíss. Þrátt fyrir það séu menn hissa á að ísinn sé að vaxa á norðurhveli.

„Það sem ég er að benda á er að það hlýnar alls ekki jafnt. Það hlýnar ekki í hlutfalli við koltvísýringinn sem safnast í lofti því það koma til aðrar miklar náttúrulegar hitabylgjur sem hafa staðið í mörg hundruð ár. Þannig að það verða svona 30 hlý ár og 30 köld ár á víxl. Þetta kemur ofan á þessa [hnattrænu] hlýnun og þess vegna er það ruglandi fyrir fólk þegar talað er um að það sé alltaf að hlýna því það er ekki alltaf að hlýna,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Menn skilji ekki orsakir þessar sveiflna í hitastiginu en Páll þykist hafa skýringu á þeim. Stækki hafísinn á norðurhveli þá varpar hann meira af sólarljósi aftur út í geiminn. Það valdi kólnun sem leiðir aftur til þess að hafísinn vaxi. Slík keðjuverkun geti varað í allt að þrjátíu ár. Áhrif sunnan að vegi hins vegar á endanum á móti. Þar verði orðið svo kalt að hitageislunin út í geim verði lítil en sólskinið eins mikið og áður. Þá fari hlýnandi og þau hlýindi berist með vindum norðar yfir ísinn og verkunin snýst við.

Þeir sem vilja afneita því að jörðin sé að hlýna að völdum manna eru gjarnan fljótir að vísa til þess ef hafís vex aftur tímabundið eða ef kólnun verður. Of mikið sé gert úr ábyrgð mana. Páll segir það alls ekki rétt. Hins vegar sé ekki viðurkennt að hlýnunin gangi alls ekki jöfnun skrefum.

„Verði það nú á næstunni að það kólni í bili telur fólk að það sé bara ekkert að marka þessi vísindi. Það eigi að halda áfram að hlýna en það sé að kólna og þá tekur það ekki mark á þessum ráðleggingum. Þá finnst fólki að það sé verið að ljúga að því og það má ekki ske. Þess vegna finnst mér að það eigi benda á þennan möguleika til að fólk átti sig á því að það þarf samt sem áður að takmarka þessa brennslu á jarðefnum því að eftir þessa kólnun má búast við að það komi ennþá meiri hlýnun en nokkru sinni fyrr seinna á öldinni,“ segir Páll. 

Ruglað saman við hnattræna hlýnun

Að sögn Halldórs Björnssonar, verkefnisstjóra loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, eiga sterkari áratugasveiflur í hitastigi sér stað á norðurhveli jarðar en víðast annars staðar. Þannig hafi byrjað að hlýna mikið upp úr 1920 fram yfir miðja síðustu öld. Þá hafi tekið við kaldara tímabil en upp úr 1980 hafi aftur byrjað að hlýna skarpt.

„Fólk ruglar oft saman þessu og hnattrænni hlýnun. Ef maður hugsar sér hnattræna hlýnun sem línulegan feril sem eykst hægt og rólega og svo leggjast þessar sveiflur ofan á þar sem þú býrð, þá myndirðu stundum sjá mjög ákafa hlýnun og stundum enga hlýnun,“ segir hann.

Halldór segir útskýringu Páls á orsökum hitasveiflnanna alls ekki galna. Hún gæti mjög vel verið rétt fyrir okkar heimssvæði. Það sé hins vegar ekki rétt sem Páll hafi haldið fram að hafísinn á norðurhveli sé að aukast. Ísinn á norðurhveli sé hægt og rólega að minnka og sú þróun hafi orðið hraðari á síðustu áratugum. Þó að mögulegt sé að sveiflurnar valdi tímabundnu hiki í samdrætti íssins séu enn engin merki um að slíkt sé að gerast.

„Ef maður skoðar sumarísinn þá minnkar hann um ca. 2,6% á ári en stöku ár dettur hann alveg niður. Fyrst gerðist það árið 2007 og svo aftur 2012. Árin eftir jafnaði hann sig og hélt áfram sömu þróun og áður. Þetta gengur sinn vanagang ef frá eru talin þessi einstöku hrunár. Þau eru ekki vel skilin. Það er eins og kerfið sé viðkvæmt og að stöku sinnum geti gerst eitthvað sem verður til þess að það hrynur aukalega. Svo jafnar þetta sig alltaf á veturna aftur,“ segir Halldór.

Því hafi það enga þýðingu að líta á árin sem mesta hrunið varð og benda á aukningu á ísnum miðað við þau sem rök fyrir því að hafísinn á norðurhveli sé að stækka.

Graf sem sýnir lágmarksútbreiðslu hafíss á norðurhveli. Gildin eru í …
Graf sem sýnir lágmarksútbreiðslu hafíss á norðurhveli. Gildin eru í milljónum ferkílómetra. Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert