„Vonandi fer þessu bara að ljúka“

Eldgosið í Holuhrauni veldur mikilli mengun.
Eldgosið í Holuhrauni veldur mikilli mengun. mbl.is/RAX

„Þetta er eiginlega bara alveg hrikalegt, ekki síst þar sem maður veit ekki hversu lengi þetta verður í gangi og hversu lengi fólk þarf að glíma við þetta,“ segir Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands, í samtali við mbl.is vegna gosmengunarinnar frá eldgosinu í Holuhrauni. Sjálf sé hún hlaupari og finni mjög mikinn mun á sér vegna mengunarinnar. Það sama eigi við um fleiri sem hún hafi heyrt í og eru í sömu stöðu.

„Maður er kannski ekkert að leita til læknis þar sem maður veit hvað er í gangi og reynir því bara að taka mið af aðstæðum,“ segir hún spurð hvort hún hafi þurft að leita til læknis og auka við astmalyfin sín. Hún segist frekar hafa reynt að þrauka. Margir séu vafalaust í sömu stöðu. „Til að mynda á sunnudaginn fyrir viku þá var ég úti að hlaupa um morguninn og það var stilla og kalt og ég fann alveg gríðarlegan mun á mér. Þetta lýsir sér bara eins og maður sé með mjög slæman astma, eigi mjög erfitt með að reyna á sig og líði bara hreinlega illa.“

Félagið hafi út af fyrir sig ekki getað gert mikið í málinu. „Við höfum verið að birta mengunartölur og miðla slíkum upplýsingum frá yfirvöldum. En vonandi fer þessu bara að ljúka. Það er oft erfitt að átta sig á þessu. Hvort það er menguninni um að kenna eða bara dagsforminu. Fyrst í stað var ég tiltölulega róleg yfir þessu en nú veltir maður því fyrir sér hvort þetta ætli engan endi að taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert